Vilja fá geðheilbrigðismál í stjórnarsáttmála

Hjálparsamtökin UNICEF skora á flokkana sem mynda ríkisstjórn að setja …
Hjálparsamtökin UNICEF skora á flokkana sem mynda ríkisstjórn að setja málefni barna í forgang í viðræðum um stjórnarsamstarf og setja tillögur þeirra er varða geðheilbrigðismál í stjórnarsáttmála. Ljósmynd/UNICEF

Verulegt ósamræmi ríkir á heimsvísu í geðheilbrigðismálum milli annars vegar þarfa barna og ungmenna, og hins vegar þess fjármagns sem varið er í málefnið. Vegna stöðunnar skorar UNICEF á flokkana sem mynda nú ríkisstjórn að setja málefni barna í forgang í viðræðum um stjórnarsamstarf. Vilja samtökin einnig að tillögur þeirra er varða geðheilbrigðismál verði sett í stjórnarsáttmála.

Þetta kemur fram í tilkynningu UNICEF.

Hjálparsamtökin sendu í gær ákall til formenn allra flokka er náðu kjöri í þingkosningunum, sem var undirritað af Birnu Þórarinsdóttur framkvæmdastjóra UNICEF og Óttarri Proppé, formanni stjórnar UNICEF á Íslandi.

Tillögur samtakanna hljóða svo:

  • Stöðva fordóma í kringum andlega heilsu, innleiða fræðslu í grunn- og framhaldsskólum og hafa sálfræðiþjónustu aðgengilega fyrir alla, óháð fjárhagslegri stöðu, í samræmi við tillögur Ungmennaráðs Heimsmarkmiðanna; 
  • Skýra ábyrgð á málaflokknum og móta sameiginlega sýn sem hvílir á samstarfi þvert á stjórnarráð og stjórnsýslustig; 
  • Ryðja burt stjórnsýslu- og tæknihindrunum sem standa í vegi fyrir framförum í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn; 
  • Auka samstarf og þekkingu allra starfsstétta sem sinna börnum og gera þannig fleira fólk fært um að sinna andlegri heilsu barna og veita fyrstu viðbrögð; 
  • Auka þekkingu og færni foreldra til að stuðla að góðri andlegri heilsu barna sinna;  
  • Sjá til þess að börn og ungmenni sem glíma við geðrænan vanda þurfi ekki að bíða eftir viðeigandi úrræðum;  
  • Huga sérstaklega að réttindum viðkvæmra hópa barna, s.s. barna af erlendum uppruna, fatlaðra barna, barna með taugaþroskaraskanir og barna sem verða fyrir ofbeldi. 

2,1% af útgjöldum í heilbrigðismál fara í geðheilbrigðismál

Sjöunda hvert barn og ungmenni á aldrinum 10 til 19 ára er með greinda geðröskun en ár hvert falla um 46 þúsund ungmenni fyrir eigin hendi. Hefur þá ástandið í heimsfaraldrinum ekki bætt um betur en ætla má að kórónuveiran hafi haft neikvæð áhrif á geðheilsu og líðan fólks víða um heim. Þrátt fyrir það er einungis 2,1% af útgjöldum ríkja í heilbrigðismál er varið í geðheilbrigðismál að meðaltali, að því er fram kemur í tilkynningunni.

 „Við, eins og fleiri, höfum miklar áhyggjur af stöðu geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna hér á landi. Það kom skýrt fram í kosningabaráttunni að flestir ráðamenn eru sammála um að geðheilbrigðismál eru eitt stærsta samfélagsmálið sem við glímum við í dag og að vandinn sé margþættur. Nú er tækifærið til að setja markmið og tryggja fjármögnun fyrir málaflokkinn til næstu fjögurra ára,“ er haft eftir Birnu Þórarinsdóttur í tilkynningunni.

34% aukning á bráðakomum í byrjun árs

Í áfangaskýrslu stýrihóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins hefur jafnframt komið fram að áhrif samfélagsbreytinga hérlendis hafi haft alvarlegri áhrif á líðan ungmenna í framhaldsskólum samanborið við almenning í heild. Var þá almennur biðtími á Barna- og unglingageðdeild yfir sjö mánuðir og talið var að sá tími gæti lengst enn frekar.

Í janúar og febrúar varð síðan 34% aukning á bráðakomum og bráðainnlögnum ef miðað er við sama tímabil síðasta árs. Eru einnig vísbendingar um að átröskunarvandi hafi aukist, og tilkynningar um ofbeldi og vanrækslu til barnaverndar fjölgað.

„Þrátt fyrir að gjaldfrjáls sálfræðiþjónusta sé í boði fyrir börn og umönnunaraðila á heilsugæslustöðvum um allt land er biðtími eftir þjónustu víðast hvar allt of langur, allt upp í 20 mánuðir á landsbyggðinni og 3-9 mánuðir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er langur tími í lífi barns og ljóst að ómeðhöndlaður vandi bitnar harkalega á rétti þess til lífs og þroska,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina