Borgarnes er „Latibær“

Magnús Scheving kynnir verkefnið á íbúafundi í Hjálmakletti.
Magnús Scheving kynnir verkefnið á íbúafundi í Hjálmakletti. mbl.is/Theodór Kr. Þórðarson

Latibær, „Lazy Town“ varð til í Borgarnesi og margar persónurnar í verkinu eru ættaðar þaðan, úr mínum heimabæ“, sagði „íþróttaálfurinn“, Magnús Scheving á kynningarfundi í Hjálmakletti í Borgarnesi en áform eru um að reisa í bænum upplifunargarð, sem byggir á Latabæjarþáttunum og sögu Borgarness fyrr og nú.

Frummælandi kynningarfundarins var Helga Halldórsdóttir frumkvöðull.   Hún sagði að árið 2017 hefði hún ásamt fleirum farið að skoða möguleika á að koma upp einhvers konar safni eða sýningu sem að byggt gæti á hugmyndafræði Latabæjar og sögu hans.  Hefði hópurinn tekið að sér að geyma í Borgarnesi töluvert af munum sem voru notaðir við upptöku þáttanna.  Rætt hefði verið um miðstöð heilsu og hollustu í anda Latabæjar og höfundar hans Magnúsar Scheving. Þættirnir hefðu verið sýndir um allan heim og Latibær/Lazy Town væri eitt þekktasta vörumerki Íslands og Magnús hefði verið nokkurs konar sendiherra hreyfingar og heilsusamlegs lífstíls um áratuga skeið.  Hefði Magnús Scheving komið til samstarfs og lagt hópnum lið í hugmyndavinnunni.

Höfundarréttur Latabæjar/Lazy Town er hjá fyrirtækinu Turner Broadcasting og tók það töluverðan tíma að fá vilyrði frá þeim til að nota vörumerkið í verkefninu.

Sagði Helga að sveitarfélagið Borgarbyggð hefði ávallt staðið við bakið á hópnum og sýnt verkefninu mikinn áhuga.  Þá hafi Kaupfélag Borgfirðinga lýst sig tilbúið til samstarfs um uppbyggingu á lóðinni við Digranesgötu 4 og sagðist Helga vonast til þess að fleiri öflug fyrirtæki og aðilar í héraði kæmu að fyrirhugaðri uppbyggingu.

„Markmiðið er að skapa umgjörð sem efli sveitarfélagið okkar, laði til sín fjölskyldufólk, erlenda ferðamenn og einstaklinga sem vilja leggja rækt við líkama og sál“, sagði Helga.


Fjölbreyttur og lifandi garður

Í framsögu sinni sagði Magnús Scheving að ekki væri um eiginlegt safn að ræða, heldur fjölbreyttan og lifandi upplifunargarð, sem yrði jafnt úti sem inni, sem tengdist og byggði á Latabæjarþáttunum og tilurð þeirra en byggði einnig á sögu Borgarness fyrr og nú og væri samofin bæjarlífinu og umhverfinu.

Þannig sæi hann fyrir sér fjölþætt áhrif sem upplifunargarðurinn hefði á alla ferðamennsku sem og allt bæjarlífið í Borgarnesi, þegar fram liðu stundir og ef vel tækist til. Hann sagðist sjá fyrir sér bæði erlenda sem og innlenda gesti og dagskrá sem væri síbreytileg.  Alltaf væri eitthvað nýtt í gangi, samhliða föstum atriðum. 

Með samstilltu átaki bæjaryfirvalda og þeirra fyrirtækja og stofnanna sem sinntu ferðamennskunni, væri hægt að breyta ásýnd bæjarins til betri vegar, auka tengingar og samvinnu og fá ferðamenn til að dvelja lengur í bænum og upplifa stöðugt nýja og spennandi hluti. 

Forsvarsmenn nýsköpunarfyrirtækisins Upplifunargarðurinn ehf, ásamt stuðningsaðilum, frá vinstri; Hjónin Gunnar …
Forsvarsmenn nýsköpunarfyrirtækisins Upplifunargarðurinn ehf, ásamt stuðningsaðilum, frá vinstri; Hjónin Gunnar Jónsson og Helga Halldórsdóttir frumkvöðlar, Margrét Katrín Guðnadóttir kaupfélagsstjóri, Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri, Magnús Scheving frumkvöðull og Páll Kr. Pálsson verkefnastjóri. mbl.is/Theodór

Þessi starfsemi ætti vissulega heima í Borgarnesi, heimabæ hans, þar sem Latibær hefði orðið til í vissum skilningi og margar persónur þáttanna væru sprottnar þaðan frá sterkum fyrirmyndum sem búið hefðu og starfað með honum í bænum. 

Sagði Magnús að þættirnir um Latabæ eða Lazy Town hefðu verið sýndir út um allan heim á liðnum áratugum, mörg hundruð milljónir barna hefðu horft á þættina og sum börnin sem hefðu horft á þættina á sínum tíma væru orðin fullorðin í dag og ættu sjálf börn og vildu ferðast.  Hugmyndin væri að Borgarnes yrði segull fyrir hluta af þessu fólki til að heimsækja fæðingarstað Latabæjar og skoða hvernig þættirnir urðu til.

35 þúsund gestir

Páll Kr. Pálsson verkefnastjóri kynnti grunnhugmyndir varðandi kostnaðaráætlanir og áætlaðan fjölda gesta. Gert væri ráð fyrir að fá 35 þúsund gesti á fyrsta ári og þeir yrðu um 50 þúsund eftir fjögur ár.  Talið væri að erlendir gestir yrðu heldur fleiri en innlendir en að íslendingarnir kæmu oftar. 


Aðspurður um kostnað við uppbygginguna sagði Páll að hann yrði trúlega um nokkur hundruð milljónir króna en ný kostnaðaráætlun væri í vinnslu.  Byggt yrði 1500 til 2000 fermetra hús. Ef vel væri að verki staðið gæti uppbyggingin tekið um tvö til þrjú ár.  Gert væri ráð fyri að í upphafi yrðu ráðnir tíu fastir starfsmenn sem fengju sérstaka þjálfun í móttöku gesta á öllum aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert