Landsréttur hafnar beiðni Zúista-bræðra

Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson.
Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson. Samsett mynd

Landsréttur hafnaði á þriðjudag kröfum forsvarsmanna Zúista-félagsins um afhendingu tiltekinna ganga frá héraðssaksóknara og skrifstofu fjármálagerninga lögreglu. Með því staðfesti rétturinn úrskurð héraðsdóm um sama efni en bræðurnir Ágúst Arnar og Einar Ágústsynir sæta ákæru fyrir fjársvik og peningaþvætti.

Gögnin sem þeir óskuðu eftir varða upphaf rannsóknar málsins og tilkynningu um hugsanlegt peningaþvætti. „Um sé að ræða formlegt erindi sent á grundvelli lögbundins fyrirkomulags og telja þeir óumdeilt að það teljist ekki vera vinnuskjal lögreglu. Það sé réttmæt krafa af hálfu ákærðu að öll atriði er varða málið séu uppi á borðinu og mikilvægt að þeir geti fullvissað sig um að rétt hafi verið staðið að málinu frá upphafi,“ segir í málatilbúnaði bræðranna.

Ekkert sem bendir til þess að þeir hafi átt að fá afrit

Landsréttur bendir á að lögum samkvæmt hefði SFL verið skylt að senda erindi til lögbærs stjórnvalds ef greiningar á viðskiptum bentu til þess að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað. Það stjórnvald tæki síðan ákvörðun um framhald málsins: „Ekkert í framangreindum ákvæðum eða í gögnum málsins bendir til þess að sóknaraðili hafi fengið eða átt að fá sent afrit af þeirri tilkynningu sem erindi SFL til sóknaraðila byggði á.“ 

Varðandi kröfu þeirra um afhendingu erindi SFL til héraðssaksóknara segir rétturinn það á forræði ákæruvalds hvaða gögn verði lögð fram til að fullnægja sönnunarbyrðinni. Héraðssaksóknara var skylt að leggja sjálfstætt mat á öll gögn sem þeir hafi safnað, eftir atvikum, frá öðrum stjórnvöldum:

„Varnaraðilar hafa ekki bent á ákveðin atriði sem þeir telja vera í erindi SFL til héraðssaksóknara eða útskýrt hvernig það geti haft áhrif á úrlausn þessa máls. Samkvæmt framangreindu liggur ekkert fyrir um að erindi það, sem varnaraðilar krefjast afhendingar á, hafi að geyma sönnun um atvik máls sem ákæruvaldinu sé skylt að leggja fram. Verður því jafnframt að hafna kröfum varnaraðila um afhendingu eða aðgang að því.“

mbl.is