Vilja fækka prestum vegna fjárhagsvandræða

Tillaga um hagræðingu á mannhaldi þjóðkirkjunnar felur í sér að …
Tillaga um hagræðingu á mannhaldi þjóðkirkjunnar felur í sér að fjöldi stöðugilda starfsmanna verði 157,7. Eggert Jóhannesson

Fyrir liggur tillaga til hagræðingu á mannhaldi þjóðkirkjunnar. Lagt er til að fjöldi stöðugilda starfsmanna verði 157,7 en nú er hann 169,7. Þetta kemur fram í minnisblaði um hagræðingu í mannahaldi þjóðkirkjunnar.

Vilja ekki að komi til uppsagna

Í minnisblaðinu er lagt til að heildarfjöldi starfsmanna verði um það bil sá sem var miðað við í kirkjujarðasamkomulagi frá 1997 en heildarfjöldi starfsmanna kirkjunnar í dag er nokkuð umfram þann fjölda sem lagður var til grundvallar í samkomulaginu.

„Lagt er til að markmiði um fækkun stöðugilda verði náð ekki síðar en á næstu tveimur árum og á því aðlögunartímabili verði heimildir til að færa fólk til í störfum nýttar eins vel og framast er unnt auk þess sem samið verði um starfslok og/eða skert starfshlutfall þar sem það geti átt við. Verði þessar leiðir markvisst nýttar virðist okkur að ekki þurfi að koma til uppsagna, nema þá í algjörum undantekningartilfellum,“ segir í minnisblaðinu.

Núverandi fjöldi stöðugilda er 169,7. Lagt er upp með að stöðugildi presta verði alls 134,7 sem er fækkun um 10,5. Stöðugildi á biskupsstofu og í annarri stoðþjónustu verði 24,5 sem er fækkun um 1,5. Fjöldi stöðugilda yrði því alls 157,7 en ætti að vera 158 samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu. 

Áætla 180-190 milljón króna sparnað

Við gerð minnisblaðsins var horft til ýmissa þátta eins og fjárhagsstöðu kirkjunnar, landfræðilegra staðhátta og íbúaþróun. 

„Þá hefur sérstaklega verið tekið tillit til þess að núverandi fjárhagsstaða leyfir ekki þann fjölda starfsmanna sem nú er í þjónustu kirkjunnar. Þá var einnig horft til þátta eins og mannfjölda, fjölda þjóðkirkjufólks, fjölda kirkna og messuskyldu á þeim, vegalengda og ýmissa landfræðilegra staðhátta sem hafa áhrif á prestsþjónustuna. Einnig var skoðuð líkleg íbúaþróun á þeim svæðum þar sem mestar líkur eru taldar á verulegum breytingum á næstu árum. Þá hefur einnig verið horft til þess að afleggja einmenningsprestaköll eins víða og kostur er í samræmi við stefnumótun biskupafundar.“

Áætlað er að árlegur sparnaður á launakostnaði verði u.þ.b. 180-190 milljónir króna og er vonast til að hann leiði til jafnvægis í fjármálum kirkjunnar.

„Ætti það að vera gott innlegg í þær hagræðingaraðgerðir sem kirkjan þarf nauðsynlega að grípa til, þannig að hún nái sem fyrst jafnvægi í fjármálum sínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert