Nítján leitað á neyðarmóttöku vegna hópnauðgana

Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri neyðarmóttöku þolenda kynferðisbrota
Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri neyðarmóttöku þolenda kynferðisbrota mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nítján einstaklingar hafa leitað til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis vegna hópnauðgana það sem af er ári. Allt síðasta ár leituðu þangað 13 manns vegna hópnauðgana og árið 2019 voru þeir sex.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Þar er haft eftir Hrönn Stefánsdóttur, hjúkrunarfræðingi og verkefnastjóra á neyðarmóttökunni, að ógnvænlegt sé hversu mikið þessum tilfellum hefur fjölgað. Hún segir einnig að þrátt fyrir að allt kynferðisofbeldi sé áfall fyrir þolendur séu hópnauðganir sérstaklega mikið áfall.

Brot þar sem gerandi og þolandi eru nákomnir færast í vöxt

Alls hefur nú 131 mál komið inn á borð neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis það sem af er ári og eru málin því orðin fleiri en allt árið í fyrra, þegar 130 mál komu upp. Í ár hafa alls verið kærð 43 mál til lögreglu.

Þá hefur kynferðisbrotum sem framin eru af vinum eða kunningjum brotaþola fjölgað milli ára og voru þau 61 í fyrra og 49 árið 2019. Hrönn segir að það sé ein ástæða þess að svo fá mál rati á borð lögreglu, að þolendur veigri sér jafnvel við að kæra einhvern nákominn sér.

Flestir þeirra sem leituðu á neyðarmóttökuna í fyrra voru einstaklingar á aldrinum 18-25 ára eða 52 einstaklingar. Alls komu 32 einstaklingar á aldrinum 26-35 ára og nítján voru 16-17 ára. Sex einstaklingar á aldrinum 10-15 ára leituðu á neyðarmóttökuna í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert