„Orsakavaldurinn í þessu er ekki bankarnir“

Birna Einarsdóttir.
Birna Einarsdóttir. mbl.is/Golli

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir ummæli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um ástæður lóðaskort í borginni vera þvert á stöðuna hjá bankanum þegar komi að framkvæmdalánum á síðustu tveimur til þremur árum.

„Mér finnst það mjög miður að heyra borgarstjóra halda þessu fram. Þetta er í algjörri andstöðu við það sem við höfum upplifað,“ segir Birna í samtali við mbl.is. Hún segir Íslandsbanka ekki hafa dregið lánveitingum til íbúðauppbyggingar og raunin sé sú að mikil samkeppni sé á milli bankanna um hvert fasteignaverkefni.

Dagur flutti framsögu á árlegum kynningarfundi borgarinnar um íbúðauppbyggingu og sagði þar meðal annars að rekja mætti skort á íbúðum í borginni til þess að viðskiptabankarnir hefðu skrúfað fyrir fjármögnun til verktaka eftir að faraldurinn skall á. „All­ir bank­arn­ir skrúfuðu fyr­ir,“ sagði Dag­ur á fundinum og bætti við að umræðan núna litaðist af „meðvirkni með bönk­un­um sem spáðu rangt.“

Engin stefnubreyting hjá Íslandsbanka

Birna segir þetta hins vegar ekki rétt hjá Degi. „Ég fullyrði að það er mikill áhuga hjá Íslandsbanka að ná til sín framkvæmdafjármögnun og við þurfum í flestum tilfellum að berjast um hana,“ segir Birna. „Orsakavaldurinn í þessu eru ekki bankarnir,“ segir hún jafnframt spurð hver sé ástæða þess að íbúðir skorti. Segist hún ekki ætla að reyna að benda á einhvern einn sökudólg, en að bankarnir hafi ekki skorast undan lánveitingum til þessa geira undanfarin ár.

Spurð nánar út í það hvort bankinn hafi tekið ákvörðun um að draga úr útlánum til íbúðaframkvæmda eða breytt stefnu sinni í þeim málaflokki eftir að faraldurinn kom upp segir Birna svo ekki vera. „Aldeilis ekki.“ Birna bendir á að sjóðstaða margra byggingaverktaka sé hins vegar góð og að því hafi þeir þurft minni fjármögnun en oft áður.

Landsbankinn segir eftirspurn nýrra lána hafa verið jafna

Í skriflegu svari frá Landsbankanum vegna fyrirspurnar mbl.is um viðbrögð við orðum borgarstjóra segir að bankinn hafi ekki tekið neina ákvörðun um að draga úr útlánum til íbúðarverkefna. Þá segir bankinn að eftirspurn eftir lánum til uppbyggingar hafi verið jöfn og ekkert bendi til sérstakrar breytingar þar á undanfarið.

„Landsbankinn hætti ekki að lána til íbúðaverkefna og tók ekki ákvörðun um að draga saman í útlánum til slíkra verkefna. Útlán til byggingaverktaka voru um 87 milljarðar kr. árið 2018, 98 milljarðar kr. í lok árs 2019 og 82 milljarðar kr. í lok árs 2020.  Mikil sala íbúða og margfalt meiri eftirspurn fyrstu kaupenda gerði það að verkum að verktakar gátu selt fleiri íbúðir og þannig losað um fé til að halda áfram uppbyggingu, sem bankinn hefur stutt með lánveitingum. Eftirspurn eftir lánum til uppbyggingar fer eftir ýmsum þáttum, m.a. framboði lóða og getu verktaka til að taka að sér ný verkefni. Eftirspurnin hefur verið nokkuð jöfn og við höfum ekki orðið vör við sérstakar breytingar á henni undanfarið. Landsbankinn er leiðandi viðskiptabanki á verktakamarkaði, hefur þjónað þessum geira vel og mun áfram lána traustum verktökum í góð byggingarverkefni,“ segir í svari bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert