Máli gegn Zuista-bræðrum frestað fram í febrúar

Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson við þingfestingu málsins.
Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson við þingfestingu málsins. Samsett mynd

Aðalmeðferð í sakamáli gegn bræðrunum Ágústi Arn­ari Ágústs­syni og Ein­ari Ágústs­syni, sem kenndir hafa verið við félagið Zuism, hefur verið frestað fram í febrúar, en hún átti upphaflega að fara fram dagana 16.-17. nóvember. Þetta var ákveðið í fyrirtöku málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag. Það er Rúv sem greinir fyrst frá málinu. Ásamt bræðrunum er málið höfðað gegn Zuism trúfélagi, EAF ehf. og Threescore LLC.

Ágúst og Einar voru í forsvari fyrir félagið Zuism trúfélag, en eins og mbl.is hefur áður greint frá voru þeir ákærðir fyrir fjársvik og peningaþvætti í tengslum við starfsemi félagsins. Eru þeir sagðir hafa svikið úr rík­is­sjóði um 85 millj­ón­ir sem greidd­ar voru út í formi sókn­ar­gjalda án þess að hafa upp­fyllt skil­yrði sem skráð trú­fé­lag.

Í ákæru málsins kom fram að  „blekk­ing­ar ákærðu“ hafi lotið að því að inn­an fé­lag­ins væri lögð stund á átrúnað eða trú í virkri og stöðugri starf­semi og að trú­ar­brögðin hefðu náð fót­festu hér á landi og að í fé­lag­inu væri kjarni fé­lags­manna sem tæki þátt í starf­semi þess og styddi lífs­gildi þess í sam­ræmi við kenn­ing­ar þær sem trú­fé­lagið var stofnað um. Raunin hafi hins vegar verið að ekki fór fram á vegum félagsins nein eiginleg trúariðkun eða tengd starfsemi sem gat samræmst með réttu þessum lagaskilyrðum.

Þá hafi fjár­mun­um sem runnu til trú­fé­lags­ins frá rík­is­sjóði í raun ekki verið varið til eða í þágu eig­in­legr­ar trú­ariðkun­ar eða tengdr­ar starf­semi, held­ur verið ráðstafað með öðrum og óskyld­um hætti, meðal ann­ars í þágu bræðranna, „sem fóru ein­ir með prókúru trú­fé­lags­ins, ráðstöf­un fjár­muna þess og stjórn þess í reynd,“ seg­ir í ákær­unni.

Segir í ákærunni að bræðurnir hafi blekkt stjórnvöld þegar þeir upplýstu um trúfélagið uppfyllti lögbundið skilyrði skráningar. Þá segir þar jafnframt að Einar hafi millifært 46,4 millj­ón­ir af banka­reikn­ingi Zuism yfir á einka­hluta­fé­lagið EAF. Eig­andi EAF var fé­lagið Skaj­aquoda Capital LLC, en það var í raun­veru­legri eigu Ein­ars.

Auk milli­færsln­anna var látið líta út fyr­ir að EAF hefði lánað Zuism fjár­muni og að Zuism hefði keypt EAF af Skaj­aquoda.

Var stór hluti fyrr­greindr­ar upp­hæðar, sam­tals 39,6 millj­ón­ir, milli­færður á reikn­ing EAF hjá verðbréfa­fyr­ir­tæki í Bretlandi og á banka­reikn­ing Ein­ars í JP­Morg­an í Banda­ríkj­un­um. Þaðan var stór hluti fjár­mun­anna flutt­ur á reikn­ing Threescore LLC.

Fram kem­ur að ráðstafað hafi verið um 6,6 millj­ón­um króna í svo­nefnd­ar end­ur­greiðslur á trú­fé­lags­gjöld­um, en ein meg­in­skýr­ing þess að fólk skráði sig í fé­lagið á sín­um tíma voru lof­orð um að fé­lags­menn fengju sókn­ar­gjöld end­ur­greidd. Þá greiddi fé­lagið 9,7 millj­ón­ir í lög­fræðikostnað, 2,4 millj­ón­ir í styrk­greiðslur til góðgerðar­mála og 2,3 millj­ón­ir í aðrar greiðslur.

Þá tóku bræðurn­ir út 6,4 millj­ón­ir í reiðufé af reikn­ing­um fé­lags­ins og 4,4 millj­ón­ir voru notaðar í vöru- og þjón­ustu­kaup, svo sem hjá veit­inga­hús­um, áfeng­is­versl­un­um, eldsneyt­is­stöðvum, mat­vöru­versl­un­um og fjar­skipta­fyr­ir­tækj­um svo og vegna ferðakostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert