Sá konuna reka um 200 metra frá landi

David segist hafa verið að taka myndir er hann heyrir …
David segist hafa verið að taka myndir er hann heyrir öskur og sér fjóra ferðamenn í sjónum. mbl.is/Jónas Erlendsson

Leiðsögumaður sem varð vitni að banaslysinu sem varð við Reynisfjöru í dag, er ung kona fór út með öldu og fannst síðar látin í sjónum, segir að aðstæður hafi verið slæmar og mikill öldugangur hafi verið. Hann segir ferðamenn sem þangað koma oft hætta sér nálægt sjónum og að þeir hlusti ekki endilega á fyrirmæli leiðsögumanna.

Leiðsögumaðurinn, David Kelley, var sjálfur með hóp ferðamanna í Reynisfjöru í dag er hann tók eftir því að ferðamenn úr öðrum hópi voru að hætta sér nálægt helli í fjörunni. Að sögn hans voru um 200 ferðamenn í fjörunni er slysið átti sér stað.

David segist hafa verið að taka myndir er hann heyrir öskur og sér fjóra ferðamenn í sjónum.

„Einn komst í land án nokkurs vafa, tveir náðu að koma sér á land eftir að hafa dottið alveg ofan í en sú fjórða var dregin í burtu með kraftmikilli öldu,“ segir hann..

„Hún var um 200 metra frá ströndinni þegar ég missti sjónar á henni.“

Hann segist hafa hringt í neyðarlínuna um leið og hann hafi áttað sig á því að það væri ekki væri hægt að koma konunni til bjargar án aðstoðar.

David segir ferðamenn oft á tíðum ekki hlusta á fyrirmæli …
David segir ferðamenn oft á tíðum ekki hlusta á fyrirmæli leiðsögumanna þegar fólk er beðið um að fara ekki nálægt sjónum vegna þeirrar hættu sem því fylgir og sé jafnvel dónalegt. mbl.is/Jónas Erlendsson

Aldrei séð neinn fara svo langt með öldu

David segist hafa orðið virkilega sleginn eftir að hafa orðið vitni að slysinu í dag. Hann hafi unnið sem leiðsögumaður á svæðinu í um 15 ár og oft kallað á ferðamenn sem fari óvarlega í fjörunni.

David segist hafa séð marga ferðamenn fara í sjóinn á starfsárum sínum en þó aldrei séð einhvern dragast svo langt með öldu og ekki ná að koma sér aftur að landi.

„Ég hef verið leiðsögumaður á svæðinu í um fimmtán ár svo ég hef séð flest, en ég hef aldrei séð einhvern í raun og veru dragast alla leið með öldu og ekki koma aftur að landi.“

Ferðamenn fari óvarlega og hlusti ekki á leiðsögumenn

Hann segir ferðamenn oft og tíðum ekki hlusta á fyrirmæli leiðsögumanna þegar fólk er beðið um að fara ekki nálægt sjónum vegna þeirrar hættu sem því fylgir og sé jafnvel dónalegt.

David segist vera virkilega varkár með sína hópa en að hann sé hættur að öskra á alla sem hann sjái fara hættulega nálægt sjónum.

„Ég gerði það áður fyrr, ég var virkilega stressaður og öskraði oft á fólk að fara frá sjónum en fólk hlustar ekki á mann og er jafnvel mjög dónalegt við mann.“

Hann segir að sumir hópar ferðamanna skilji ekki leiðsögumenn sína sem tala á ensku og að hann hafi áður fyrr lent í því. Hann hafi þó sjálfur tekið fyrir að vera með hópa sem ekki skilji hann þar sem það sé gríðarlega hættulegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert