Bóluefnasending fyrir yngri börn á leiðinni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Pöntun af bóluefni fyrir börn á aldrinum 5 til 11 ára gegn Covid-19 er á leiðinni til landsins og kemur væntanlega til landsins í lok desembermánaðar. Smitbylgjan nú virðist vera drifin áfram af smitum hjá óbólusettum börnum á grunnskólaaldri.

Lyfjastofnun Evrópu skoðar nú umsóknir bæði Pfizer og Moderna vegna bóluefna gegn Covid-19 fyrir börn, í tilviki Pfizer er um að ræða bóluefni fyrir 5 til 11 ára en í tilviki Moderna 6 til 11 ára. Umsókn Pfizer var lögð inn fyrr. 

Ef stofnunin veitir markaðsleyfi áður en umrædd sending kemur til landsins er mögulegt að þynna út bóluefni fyrir fullorðna og nota það fyrir börn þar sem þau eiga að fá minni skammta en fullorðnir.

„Það eru ýmsar bollaleggingar í kringum það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Höfum ekki ótakmarkaðan mannskap

Nú stendur yfir bólusetning fyrir fullorðna með þriðja skammtinum af bóluefni og er nóg að gera hjá starfsfólki heilsugæslunnar af þeim sökum.

„Það er ekki alveg víst að það náist að bólusetja alla á sama tíma vegna þess að við höfum ekki ótakmarkaðan mannskap til að bólusetja. Það þarf að skoða þetta í heildarsamhengi,“ segir Þórólfur.

Um 25% til 30% þeirra sem hafa greinst smituð undanfarið eru börn í grunnskólum, að sögn Þórólfs.

„Mér sýnist að þessar hópsýkingar sem eru að koma upp vera að koma upp í kringum skólana eða í skólunum. Við erum að sjá allt annað mynstur í þessari bylgju en áður. Það virðist vera að þessi bylgja sé drifin töluvert mikið áfram af smitum í skólum. Það er allt öðruvísi en við höfum séð áður,“ segir Þórólfur.

Hann bendir á að mikil áhersla hafi verið lögð á að trufla skólastarf eins lítið og mögulegt er og einungis hefur verið gripið til skólalokana í neyðartilvikum. Þá segir Þórólfur að þó börn veikist oftast ekki alvarlega þá geti þau auðveldlega smitað aðra og þannig drifið faraldurinn áfram. Þá geta börn veikst alvarlega af Covid-19 og því er bólusetning barna mikilvæg fyrir þau sjálf, að sögn Þórólfs.

„Þau geta veikst alvarlega og við höfum verið með alvarlega veik börn inni á spítalanum í þessari bylgju. Við fáum fréttir erlendis frá, sérstaklega frá Bandaríkjunum um alvarleg veikindi og þessar rannsóknir sem hafa verið gerðar á börnum sýna að bóluefnin virðast vera örugg fyrir börn og þær aukaverkanir sem við sjáum hjá fullorðnum hafa ekki sést hjá börnum,“ segir Þórólfur.

Bólusetning barna á aldrinum 12 til 15 ára hófst af …
Bólusetning barna á aldrinum 12 til 15 ára hófst af alvöru í ágúst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Markmiðið að vernda börnin og rjúfa smitkeðjuna

Með bólusetningu aldurshópsins er markmiðið því bæði að vernda börnin sjálf og rjúfa smitkeðjuna.

„Þó alvarlegar afleiðingar séu sjaldgæfari hjá börnum en fullorðnum eru þær svo sannarlega til staðar og ef menn bera saman alvarlegar afleiðingar Covid miðað við bólusetningu eru þær miklu meiri af Covid en bólusetningunum,“ segir Þórólfur.

Spurður um það um hvers konar alvarlegar afleiðingar Covid-19 hafi sést hjá börnum segir Þórólfur að börn sem hafi veikst af Covid-19 hafi sum lent í því að sýna alvarlegt bólgusvar sem sést bara við mjög alvarlegar sýkingar, hjartabólgur og bólgur í lungum og innri líffærum.

133 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. Þórólfur segir að miðað við smittölur síðustu daga sé faraldurinn ekki á uppleið hér á landi og vísbendingar séu um að hann sé á niðurleið. „Auðvitað vonumst við til þess að sú sé raunin,“ segir Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina