Ruddist vopnaður „hákarlasveðjum“ inn til sofandi manns

Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands. mbl.is/Gúna

Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Austurlands fyrir minni háttar líkamsárás, hótanir og vopnalagabrot. Ruddist hann inn á heimili annars manns þar sem sá var sofandi. Var árásarmaðurinn vopnaður sveðju, sveiflaði henni og hótaði að leggja til mannsins. Þá lamdi hann manninn einnig ítrekað í andlit og líkama.

Í dóminum kemur fram að árásin hafi átt sér stað í júlí 2019. Flest öll málsatvik eru ljós ef frá er talið hvað setti atburðarásina af stað. Við rannsókn lögreglu eru hins vegar leiddar líkur að því að þriðji aðili hafi sent árásarmanninum SMS-skilaboð úr síma þess sem varð fyrir árásinni. Skilaboðin hafi verið með öllu ósönn, eins og sagt er í dóminum, en þau hafi varðað ætlaða skuld vegna fíkniefnaviðskipta.

Eftir að hafa fengið skilaboðin send fór árásarmaðurinn að heimili hins mannsins, ruddist þar inn og fór inn í herbergi hans, en þar lá maðurinn sofandi. Sveiflaði árásarmaðurinn sveðjunni þar í kringum sig og átti í hótunum við húseiganda. Segir í dóminum að maðurinn hafi verið búinn svonefndum „hákarlasveðjum“ sem væru með 30-31 cm blaði.

Ágreiningslaust er að mennirnir ákváðu í framhaldinu að halda heim til annars manns til að fá botn í efni SMS-skilaboðanna. Þá segir einnig að ljóst sé að árásarmaðurinn hafi sagt hinum að hringja eftir aðstoð lögreglu.

Fram kemur að lögreglan sem hafi farið á vettvang hafi keyrt fram á bifreið með mönnunum tveimur í og hafi sá sem varð fyrir árásinni hangið þar hálfur út um gluggann. Hafi lögreglan séð sýnilega áverka víðsvegar um líkama fórnarlambsins. Var árásarmaðurinn í kjölfarið handtekinn, en hann var í annarlegu ástandi og undir áhrifum áfengis.

Játaði árásarmaðurinn brot sín. Þá átti hann enga sögu um ofbeldisbrot, en í ljósi þess og að áverkar fórnarlambsins þóttu minni háttar var niðurstaða dómsins að dæma hann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða þeim sem ráðist var að 350 þúsund krónur í miskabætur.

mbl.is