Landsréttur staðfesti 2,5 ára dóm fyrir nauðgun

Einn dómari vildi þyngja dóminn í 3 ár.
Einn dómari vildi þyngja dóminn í 3 ár. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í dag tveggja og hálfs árs dóm yfir karlmanni á fertugsaldri sem fundinn var sekur um nauðgun. Þá var honum jafnframt gert að greiða konunni sem hann nauðgaði 1,8 milljón í miskabætur. Einn af þremur dómurum málsins í Landsrétti, Símon Sigvaldason, vildi þó þyngja dóminn í þrjú ár.

Maðurinn, Karol Wasilewski, var fundinn sekur um nauðgun í febrúar 2019 með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við konu. Í dóminum er því lýst að maðurinn hafi ýtt konunni inn í svefnherbergi á þáverandi heimili konunnar og haldið henni þar fastri og brotið á henni. Komst hún að lokum undan honum og flúði íbúðina. Kemur fram í dóminum að hún hafi hlotið mar á læri og upphandlegg.

Maðurinn kom upphaflega á heimili konunnar sem gestur í eftirpartí eftir að hópur fólks hafði verið saman að skemmta sér og haldið svo heim á leið til konunnar. Hins vegar hafi aðrir ákveðið á leiðinni að halda til síns heima og því hafi maðurinn og konan ein endað heima hjá henni.

Meðal sönnunargagna í málinu voru skilaboð sem maðurinn sendi konunni eftir að brotið átti sér stað. Sagðist hann hafa verið að reyna að biðjast afsökunar. Reyni hann svo að ná í konuna áfram daginn eftir. Taldi dómurinn framburð konunnar hafa verið trúverðugur, en að framburður mannsins hafi verið ótrúverðugur um þau atriði sem greindi á um í málinu. Þá studdi framburður vitna sem konan ræddi við eftir á framburð hennar.

mbl.is