Þriggja bíla árekstur þegar ekið var á lögreglubíl

Hálka er á götum úti.
Hálka er á götum úti.

Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt en 98 mál voru skráð. Eitthvað var um slagsmál, ölvunarakstur, umferðaróhöpp og þjófnaði. Í dagbók sinni brýnir lögregla fyrir ökumönnum að mikið næturfrost er á götum borgarinnar á þessum tíma árs og því ber að haga hraða eftir aðstæðum.

Klukkan korter yfir átta í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um yfirstandandi innbrot. Lögregla fór á vettvang og var einn einstaklingur handtekinn á vettvangi. Sá reyndist ofurölvi, gat ekki gefið deili á sér og var því vistaður í fangageymslu lögreglu uns ástand hans skánar. 

Stuttu síðar var einstaklingur handtekinn „með umtalsvert magn af fíkniefnum í fórum sínum.“

Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi átti það óheppilega atvik sér stað að ekið var aftan á lögreglubifreið sem hafði gefið annarri bifreið merki, með forgangsljósabúnaði, um að stöðva akstur. Lögreglubifreiðin kastaðist því fram, við höggið, á bifreiðina sem verið var að stöðva svo úr varð þriggja bíla árekstur. Minniháttar slys urðu á fólki.

Gat ekki gefið deili á sér

Klukkan tuttugu mínútur yfir tvö í nótt var 17 ára ökumaður stöðvaður á 119 kílómetra hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 km/klst.  

Laust eftir klukkan fjögur í nótt barst lögreglu tilkynning um ógnandi gest á gistiheimili. Lögregla fór á vettvang og óskaðist gesturinn fjarlægður. Gesturinn varð ekki við fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa svæðið og var hann því handtekinn og gistir nú fangageymslu lögreglu.

mbl.is