Mikið tjón en hefði getað farið verr

Akureyri.
Akureyri. Þorgeir Baldursson

Vatnslekinn í ráðhúsinu á Akureyri raskar ekki starfsemi bæjaryfirvalda að miklu leyti. Þó fylgja þessu töluverð óþægindi fyrir starfsfólk hússins. Vissulega fór illa en í sjálfu sér hefði getað farið töluvert verr. Þetta segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar.

„Já, þetta er býsna mikið tjón,“ segir Ásthildur, spurð um ástandið. „Hér er bara unnið hörðum höndum að því að þurrka það sem varð vatninu að bráð og rífa út innréttingar, veggi, loft, klæðningar og fleira sem varð fyrir tjóni.“

mbl.is greindi frá því í gær að starfsfólk ráðhússins hefði aðstoðað við að þurrka upp vatnið. Ásthildur segir verktaka á vegum bæjarins og tryggingafélaga komna í verkið nú. Sérþekking starfsfólksins sé betur nýtt í önnur verk.

Tölvur og skjöl sluppu undan vatninu

Hún segir lán í óláni að vatnið hafi ekki komist í vinnuskjöl og önnur gögn. Tölvubúnaður slapp einnig undan vatnslekanum. „Hér eru öll gögn og slíkt geymd í skjalaskápum og slapp því vel frá vatninu.“

Starfsemi bæjaryfirvalda raskast því ekki mikið vegna lekans, aðallega sé um að ræða óþægindi fyrir starfsfólk ráðhússins.

„Fólk hefur þurft að færa sig milli hæða, þarf svo að ganga milli hæða til þess að nota salernisaðstöðu, sækja vatn til að hella upp á kaffi og þess háttar. En það er búið að rífa út eina kaffistofu og salernisaðstöðu. Svo er náttúrulega hávaði af blásurum sem eru að þurrka húsið.“

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Endanlegt tjón og kostnaður ekki ljós

Starfsfólk taki ástandinu af æðruleysi, enda sé ekkert annað í stöðunni. Um sé að ræða tímabundið ástand og segir hún ekki ljóst hvort leita þurfi í bráðabirgðahúsnæði. „Það verður bara að koma í ljós síðar.“

Þrátt fyrir að tölvubúnaður hafi ekki skemmst varð einhver rafbúnaður fyrir tjóni. Lyftan í húsinu er til að mynda ónothæf en vonast er til að hún verði nothæf eftir að búið er að þurrka húsnæðið.

Endanlegur kostnaður við tjónið mun ekki liggja fyrir fyrr en búið er að þurrka allt húsnæðið og segist Ásthildur ekki viss um hvenær það muni klárast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert