Ekkert bendir til goss eftir hlaupið

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/Ragnar Axelsson

Ekkert bendir til þess að gos fari af stað á næstu dögum vegna jökulhlaups í Grímsvötnum. „Við sjáum bara engin merki. Það eru engir skjálftar sem benda til þess að kvika sé að brjótast af stað,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur en bætir við að vísindamenn geti ekki borið ábyrgð á því hverju eldfjöllin kunni að taka upp á.

Magnús rifjar upp eldgos í Grímsvötnum árið 2004, en það kom í kjölfar jökulhlaups. Margt hafi þó áður bent til gossins, svo sem óróahviður, jarðskjálftar og aukin gufuvirkni.

„Svo fer hlaup af stað og þá brýst gosið út. Þetta var ekki stórt gos en þetta var gosmökkur sem reis um 10 til 11 kílómetra og varði það í rúman sólarhring. En þarna var alveg víst að gos myndi koma og hlaupið hleypti því af stað. Nú eru aðstæður þannig að Grímsvötn voru ekki nógu nærri því að gjósa til þess að hlaupið dygði til að hleypa því af stað,“ útskýrir hann.

Þegar fyrst var greint frá hlaupinu í Grímsvötnum nú í nóvember ýjuðu sérfræðingar að því að eldgos gæti komið í kjölfarið. Hefur það legið fyrir?

„Við getum sagt að við gefum þessu smá tíma. En ég myndi segja að ef það færi af stað gos núna á næstu dögum væri það óbein afleiðing af hlaupinu,“ segir hann og bætir við að engin merki bendi til þess að kvika sé í þann mund að brjóta sér leið gegnum jarðskorpuna.

„Það sem var athyglisvert við þetta hlaup er að það mynduðust tveir sigkatlar nærri hlauprásinni og annar ketillinn er 60 metra djúpur.“

Flugvél Isavia flaug yfir á föstudag og er stefnt að því að birta myndefni þaðan í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert