Litakóðinn aftur orðinn gulur

Grímsvötn.
Grímsvötn. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Fluglitakóðinn vegna mögulegs eldgoss í Grímsvötnum hefur verið færður aftur niður á gult þar sem dregið hefur úr skjálftavirkni og eldstöðin sýnir engin önnur merki um að gos sé yfirvofandi.

Vísindamenn stefna á að fara í útsýnisflug í dag eða á morgun til að kanna nánar sigketilinn sem myndaðist suðaustur af Grímsvötnum, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Vegna aukinnar skjálftavirkni í gærmorgun, þar sem m.a. mældist skjálfti af stærðinni 3,6, sem er óvenjustór fyrir Grímsvötn, var fluglitakóðinn settur á appelsínugult.

Samkvæmt skilgreiningu er fluglitakóðinn uppfærður í appelsínugult þegar eldstöð sýnir aukna virkni og vaxandi líkur eru á eldgosi.

mbl.is