Hafa ekki efni á að ráða annan

Um 250 manns eru á launaskrá sem aðstoðarmenn NPA-notenda.
Um 250 manns eru á launaskrá sem aðstoðarmenn NPA-notenda. mbl.is/Ernir

Mjög misjafnt er hvernig fötluðu fólki sem nýtir sér NPA (notendastýrða persónulega aðstoð) gengur að ráða til sín aðstoðarfólk. Sumir eiga mjög auðvelt með það og þurfa varla að auglýsa á meðan aðrir eru í mestu vandræðum með það.

Þetta getur farið eftir einstaklingnum sem auglýsir eftir þjónustunni, til dæmis hvaða lífsstíl hann lifir og einnig hvaða kröfur hann gerir til aðstoðarfólks. Sumir vilja bara íslenskumælandi konur á ákveðnu aldursbili á meðan aðrir eru opnari hvað þetta varðar. Atvinnuástandið í þjóðfélaginu spilar einnig mikið inn í, því ef næga vinnu er að hafa er barist um aðstoðarfólk en ef hart er í ári eiga NPA-notendur mjög auðvelt með að finna aðstoðarfólk.

Þetta segir Hjörtur Örn Eysteinsson, framkvæmdastjóri NPA-miðstöðvar. Hann segir starfsmannaveltuna þegar kemur að aðstoðarfólki almennt frekar mikla en hún sé einnig bundin við notendurna sjálfa. Sumir vinnustaðir geti verið meira krefjandi en aðrir eins og gengur og gerist úti á vinnumarkaðnum. Inntur eftir því hversu marga aðstoðarmenn vantar til starfa í dag, segist hann eiga erfitt með að skjóta á það. 

Spurður hvort þessi velta sé ekki óheppilegt miðað við þau tengsl sem skapast á milli NPA-notenda og aðstoðarfólksins og traustið sem getur myndast þeirra á milli, kveðst hann sammála því.

Frá stoltgöngu fatlaðra fyrir nokkrum árum sem lauk á Austurvelli. …
Frá stoltgöngu fatlaðra fyrir nokkrum árum sem lauk á Austurvelli. Í henni er vakin athygli á réttindabaráttu fatlaðra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

250 manns á launaskrá

Um 250 manns eru á launaskrá NPA-miðstöðvar sem aðstoðarmenn. Langflestir sem sinna þessum störfum eru íslenskir ríkisborgarar og mjög algengt er að þetta sé ungt fólk, sem er þá einnig í öðru starfi. Um er að ræða ófaglært starf en í sumum tilfellum getur verið þörf á þjálfun á notkun á tækjum og öðrum búnaði.

Aðeins tveir hafa hætt í NPA og farið yfir í annað þjónustuform síðan Hjörtur hóf störf hjá miðstöðinni árið 2015 og segir hann NPA vera þess virði hjá langflestum. „Manni hættir til að tala um neikvæðu hlutina og þar er oft af nógu að taka en það eru líka frábærir hlutir í gangi.”

Helmingur ekki hluti af NPA-miðstöð

NPA-miðstöðin er samvinnufélag fatlaðs fólks og ekki næstum því allir NPA-notendur nýta sér þjónustu miðstöðvarinnar. Hún aðstoðar einungis þá sem eru meðlimir við að finna sér aðstoðarfólk.

Spurður hvers vegna allir nýta sér ekki þjónustu NPA-miðstöðvarinnar segir hann að á hinum Norðurlöndunum séu á milli þrjú til fimm prósent ekki hluti af slíku samvinnufélagi. Hér á landi er það aftur á móti um helmingur. Ástæðuna fyrir þessu telur Hjörtur Örn vera sambland af því að vilja synda á móti straumnum og því að þegar NPA-þjónustan hófst hafi stuðningur verið lítill, bæði frá samvinnufélögum og sveitarfélögum vegna fjárskorts. „Það hafði enginn efni á að gera neitt annað en að borga aðstoðarfólki laun,” segir hann en nefnir að þetta hafi skánað undanfarin ár.

Hjörtur Örn Eysteinsson.
Hjörtur Örn Eysteinsson. Ljósmynd/Aðsend

Inntur eftir því hvort fólk setji það fyrir sig að greiða fyrir kostnað vegna rekstrar hjá NPA-miðstöðinni segir hann fólk í rauninni vera eins sett hvort sem það er þar eða ekki. Það greiði ekkert fyrir að vera hjá miðstöðinni annað en hlutfall NPA-samnings frá sveitarfélaginu sem rennur til umsýslukostnaðar.

„Margir sem eru einir hafa verið að nýta þetta framlag til að borga aðstoðarfólki launakostnað vegna þess að í gegnum tíðina hafa sveitarfélög ekki verið að borga sömu upphæð og þarf til þess að greiða aðstoðarfólki þau laun sem kjarasamningar kveða á um. Það er búinn að vera slagur í mörg ár að reyna að fá sveitarfélög til að greiða taxta sem dugir fyrir kjarasamningsbundnum launum,” segir hann.

Veikindi eða sumarfrí dragi dilk á eftir sér

Mjög algengt er að NPA-notendur fái ekki nægilega mikla þjónustu. Þetta er þó misjafnt eftir sveitarfélögum, að sögn Hjartar. Dæmi um þetta er ef aðstoðarfólkið veikist eða fer í sumarfrí geta NPA-notendur lent í vandræðum því margir hverjir hafa ekki efni á að ráða neinn í staðinn, sérstaklega þegar NPA-samningar einstaklinga og sveitarfélaga kveða einungis á um fjármagn fyrir ákveðnum fjölda stöðugilda.

Hjörtur segir þetta ástand einnig bitna á aðstoðarfólkinu. „Ef aðstoðarmaður hringir sig inn veikan veit hann að viðkomandi hefur ekki efni á að fá inn annan starfsmann í staðinn. Þá eru góðar líkur á að viðkomandi einstaklingur verði einn, þó að hann þurfi aðstoð við allar athafnir allan sólarhringinn.” Fólk í viðkvæmri stöðu getur þannig lent í enn viðkvæmari stöðu fyrir vikið.

Ljósmynd/norden.org

Að mestu leyti bitnar þessi staða á nánum ættingjum, þar á meðal mökum eða foreldrum. Hjörtur bendir á að NPA snúist um að álag fari af foreldrum og öðrum aðstandendum yfir til aðstoðarfólks. „Viðkomandi einstaklingar eiga að geta lifað sjálfstæðara lífi en þegar þjónustan er eins viðkvæm og hún er og nægir ekki til að dekka tilfallandi hluti eins og veikindi þá leiðir það oft til þess að foreldrar og aðrir aðstandendur þurfa að hlaupa á skarðið,” greinir hann frá.

Ófullnægjandi framlag

Hjörtur segir marga NPA-notendur heldur ekki fá nægilegan stuðning í hlutverki sínu sem verkstjórnendur frá sveitarfélögum. Ráðuneytið eigi að skipuleggja námskeið fyrir verkstjórnendur og aðstoðarfólk og þau séu einungis nýlega farin af stað.

„Ég hef skilning á því að sveitarfélög séu ósátt við það sem þau fá frá ríkinu. Framlagið sem kemur frá ríkinu er ekki fullnægjandi,” segir hann. „Þessi vandamál eru tilkomin, ekki bara vegna þess að sveitarfélög eru ekki að standa sig heldur líka ríkið og ráðuneytið,” bætir hann og nefnir að það vanti upp á áætlanagerð og eftirfylgni.

Alþingi að kvöldi til.
Alþingi að kvöldi til. mbl.is/Hari

Um 90 NPA-samningar eru núna í gildi en fyrir lok næsta árs ættu þeir að vera orðnir 170 talsins. Um er að ræða samstarfsverkefni milli ríkis og sveitarfélaga og segir Hjörtur ríkið ekki standa sig við að fjármagna þennan fjölda samninga. Sveitarfélög geri aðeins þann fjölda samninga sem ríkið veiti mótframlög til.

Standi við skuldbindingar sínar

Í umsögn NPA-miðstöðvarinnar um fjárlagafrumvarpið er farið fram á að fjárframlög ríkisins til fjármögnunar NPA-samninga verði aukin og þau færð til samræmis við þann fjölda samninga sem bráðabirgðaákvæði laga kveður á um.

„NPA miðstöðin ætlast til þess að ríkissjóður standi við skuldbindingar sínar gagnvart einstaklingum sem bíða eftir NPA-samningum,” segir í umsögninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert