Vilja framlengja átakið „Allir vinna“

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til að átakið „Allir …
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til að átakið „Allir vinna“ verði framlengt að hluta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til að átakið  „Allir vinna“ verði framlengt að hluta fram á næsta ár en að óbreyttu lýkur því um áramótin. 

Um er að ræða tímabundin úrræði, sem voru ákveðin á síðasta ári við upphaf kórónuveirufaraldursins til að mæta efnahagslegum áhrifum hans og heimila endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna tiltekinnar vinnu við viðhald og endurbætur á fasteignum og viðgerðir á bílum. 

Í áliti nefndarmeirihlutans um lagafrumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga næsta árs, er þeirri skoðun lýst, að ekki sé  tímabært að svo stöddu að fella þetta úrræði með öllu niður. Leggur meirihlutinn því til að úrræðið verði framlengt til og með 31. ágúst 2022 að því er varðar endurgreiðslu vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis. Frá og með 1. september 2022 miðist endurgreiðslan við 60%. Ívilnun vegna vinnu við aðra þætti sem tilgreindir eru í ákvæðinu, þ.e. vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur frístundahúsnæðis, og húsnæðis í eigu sveitarfélaga, vinnu við hönnun og eftirlit með byggingu íbúðar- og frístundahúsnæðis og vinnu manna vegna heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis, verði framlengd til og með 30. júní 2022.

Á hinn bóginn falli niður frá og með 1. janúar 2022 endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna við bílaviðgerðir, bílamálningu eða réttingar fólksbíla.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert