Aðeins þrisvar gerst áður

Guðni Th. Jóhannesson þekkir söguna um ríkisráðsfundi á gamlársdag.
Guðni Th. Jóhannesson þekkir söguna um ríkisráðsfundi á gamlársdag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru það mörg smit og fjarvistir í ráðherraliðinu. Í ljósi ástandsins er það eina vitið núna að bregða núna frá þeirri venju að hafa ríkisráðsfund á gamlársdag,“ segir Guðnir Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í samtali við mbl.is um ákvörðun þess efnis sem tilkynnt var fyrr í dag. 

„Sú hefð komst á við upphaf forsetatíðar Kristjáns Eldjárns en í tíð Sveins og Ásgeirs var allur gangur á því hvort að ríkisráðsfundir væru um áramót eða nálægt áramótum. Frá upphafi forsetatíðar Kristjáns hefur það gerst þrisvar að ríkisráðsfundir var ekki á gamlársdag. Tvisvar var fundurinn frekar laugardaginn 30. desember, það er þá vegna þess að fólk vildi ekki hafa fund á messutíma á sunnudegi. Svo gerðist það á gamlársdag 1980, fyrsta ár Vigdísar Finnbogadóttur á forsetastóli, að til stóð að hafa ríkisráðsfund en vandræði og spenna í ríkisstjórnarsamstarfinu réð því að ekki var hægt að blása til fundar og var honum frestað,“ segir Guðni frá. 

Ekki hundrað í hættunni 

Hann segir að stefnt sé á að ríkisráð komi saman sem fyrst á nýju ári. „Það er alls ekki hundrað í hættunni stjórnskipulega þótt svo beri undir í þetta sinn. Það er engin stjórnskipuleg kvöð í þessum efnum.“

Hvers vegna er hefðin að funda á gamlársdag?

„Ríkisráð kom miklu oftar saman á fyrstu árum lýðveldisins; nokkrum sinnum í mánuði jafnvel. Svo fækkaði fundunum og síðustu áratugi hafa þeir að jafnaði verið tveir á ári, fyrir utan ríkisráðsfundi vegna breytinga á ríkisstjórn. Á ríkisráðsfundum eru lög og aðrar mikilvægar ráðstafanir bornar upp fyrir forseta til staðfestingar eða endurstaðfestingar. Að því leytinu til er ríkisráð formlegur og nauðsynlegur þáttur í okkar stjórnskipun,“ segir Guðni. 

Hann segir þó mega velta fyrir sér ýmsu í starfsháttum og stöðlum ríkisráðs. „Til að mynda því hvað myndi gerast ef forseti framtíðarinnar myndi ákveða að staðfesta ekki ný lög sem staðfest hafa verið utan ríkisráðs. Væntanlega myndi ekkert gerast, lögin halda gildi sínu.“

Hann útskýrir að endurstaðfesting laga í ríkisráði sé að vissu leyti arfur frá liðinni tíð þegar þjóðhöfðingi Íslands var fjarlægur konungur í fjarlægu landi. „Þá sigldi forsætisráðherra til Kaupmannahafnar með lög sem þingið hafði samþykkt og konungur staðfesti þau svo í ríkisráði konungsríkisins Íslands.“

Guðni segir að til álita hljóti að koma að gaumgæfa stöðu ríkisráðs og hlutverk þess í íslenskri stjórnskipun. 

Fyrir utan staðfestingu og endurstaðfestingu laga, hvað fer fram á fundunum?

„Ráðherrar og forseti hafa þennan formlega vettvang til þess að tjá hug sinn en langoftast eru ríkisráðsfundir mjög formlegur viðburður þar sem fátt ber til tíðinda fyrir utan þennan formlega feril. Þó getur það gerst að forseti og ráðherrar skiptist á skoðunum um málefni líðandi stundar.“

Þá segir Guðni að Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins, hafi helst viljað að lög og aðrar mikilvægar stjórnarráðstafanir væru staðfest í ríkisráði og hafi þess vegna haft þann hátt á að ríkisráð kom oft saman, jafnvel vikulega. Í Danmörku komi ríkisráð að jafnaði sex sinnum á ári saman en vikulega í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert