Andlát: Bjarni Haraldsson

Kaupmaðurinn Bjarni Haraldsson.
Kaupmaðurinn Bjarni Haraldsson. mbl.is/Björn Björnsson

Bjarni Haraldsson kaupmaður lést á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki aðfaranótt 17. janúar, 91 árs að aldri.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Bjarni fæddist á Sauðárkróki 14. mars árið 1930, sonur Haraldar Júlíussonar kaupmanns og Guðrúnar Ingibjargar Bjarnadóttur húsmóður. Systir Bjarna var María Kristín Haraldsdóttir, f. 1931, d. 2017.

Bjarni ólst upp á Sauðárkróki og hóf ungur að stunda bifreiðaakstur. Stofnaði eigið fyrirtæki, Vöruflutninga Bjarna Haraldssonar, og rak það um árabil. Bjarni starfaði jafnframt með föður sínum, sem stofnaði Verzlun Haraldar Júlíussonar árið 1919 og fór með umboð Olís í bænum frá árinu 1930. Bjarni tók við öllum þessum rekstri árið 1970 og stóð vaktina í búðinni allt þar til fyrr í vetur, að hann fór á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki. Verslunin er enn starfandi, ein fárra krambúða sem eftir eru í landinu, og hefur verið í samstarfi við Byggðasafn Skagfirðinga sem safn um horfna verslunarhætti 20. aldar. Árið 2013 var gerð heimildarmynd um verslunina, er nefnist Búðin, framleidd af Árna Gunnarssyni.

Á fjölsóttu aldarafmæli verslunarinnar sumarið 2019 var Bjarni útnefndur heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sá fyrsti hjá sameinuðu sveitarfélagi. Bjarni var dyggur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins alla tíð, gegndi trúnaðarstörfum fyrir flokkinn í Skagafirði, var í kjördæmisráði og sat fjölmarga landsfundi í Reykjavík, lengstum í fylgd systursonar síns, Einars K. Guðfinnssonar, fv. þingmanns og ráðherra flokksins.

Bjarni gegndi ýmsum öðrum félagsstörfum, sat um tíma í stjórn Lionsklúbbs Sauðárkróks, var í sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju, var trúnaðarmaður SÁÁ og gerður að heiðursfélaga Landvaka, Félags vöruflytjenda. Þá var hann heiðraður af Olís árið 2012 fyrir áratugastarf hjá félaginu.

Fyrri kona Bjarna var María Guðvarðardóttir, f. 1932, d. 1991. Þau skildu. Dætur þeirra eru Guðrún Ingibjörg, f. 1957 og Helga, f. 1959. Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Ásdís Kristjánsdóttir, f. 1931. Sonur þeirra er Lárus Ingi, f. 1962. Barnabörnin eru fjögur talsins og barnabarnabörnin sex.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »