Fær endurgreitt vegna tjóns á húsbíl

Ferðamaður bakkaði Renault Trafic á ljósastaur árið 2020.
Ferðamaður bakkaði Renault Trafic á ljósastaur árið 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bílaleiga þarf að endurgreiða viðskiptavini sínum um 440 þúsund krónur sem hann var rukkaður fyrir eftir að hafa valdið tjóni á bílnum. Viðskiptavinurinn kærði kostnaðarmat bílaleigunnar vegna viðgerðarinnar til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa sem úrskurðaði fyrir skemmstu að krafa hans væri réttmæt.

„Þrátt fyrir að óumdeilt sé milli málsaðila að sóknaraðili hafi valdið tjóni á bifreiðinni hefur varnaraðili ekki sýnt fram á raunverulegt fjárhagslegt tjón sitt vegna viðgerðar á bifreiðinni,“ segir í úrskurðinum.

Málsatvik voru þau að viðskiptavinurinn tók á leigu Renault Trafic, sem gjarnan eru nýttir sem litlir húsbílar, í október árið 2020. Hann bakkaði bílnum á ljósastaur og við það skemmdist hurð aftan á, aftari stuðari og bílrúða að aftan. Daginn eftir að bílnum var skilað lagði bílaleigan, Kúkú Campers, fram kostnaðarmat viðgerðar upp á rúmar 641 þúsund krónur og krafðist umsaminnar hámarksgreiðslu leigjenda vegna tjóns, 440 þúsund króna. Þær greiddi viðskiptavinurinn í tvennu lagi í nóvember sama ár. Hann taldi hins vegar að greiðslukrafan hefði ekki verið í samræmi við raunverulegt tjón á bílnum og krafðist endurgreiðslu sem næmi mati kærunefndarinnar á hæfilegum viðgerðarkostnaði.

Í umfjöllun kærunefndarinnar kemur fram að mat á tjóni sem bílaleigan aflaði sé sett fram með óljósum hætti svo erfitt sé að átta sig á því hvernig raunverulegt tjón sé fundið út með hlutlausum hætti. Ekki sé sýnt fram á að nauðsynlegt sé að framkvæma alla þætti kostnaðarmatsins sem beinlínis megi rekja til óhapps viðskiptavinarins og því sýni kostnaðarmatið ekki raunverulegt tjón bílaleigunnar vegna óhappsins. Nefndin tekur ekki afstöðu til þess hversu mikið viðskiptavinurinn eigi að greiða. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert