Fær 11 milljónir í bætur vegna varðhalds

Alls krafðist maðurinn rúmri 41 milljón króna og var á …
Alls krafðist maðurinn rúmri 41 milljón króna og var á því reist að hann hafi verið sviptur frelsi sínu með ólögmætum hætti í rúma sjö mánuði. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur dæmdi í dag íslenska ríkið til þess að greiða pólskum karlmanni, sem búsettur er hér á landi, tæpar 11 miljónir í miskabætur vegna sjö mánaða gæsluvarðhalds sem honum var gert að sitja, en þar af dvaldi hann 28 daga í einangrun.

Héraðsdómur Reykjaness hafði þegar gert ríkinu að greiða manninum sjö milljónir og hækkuðu því bæturnar um fjórar milljónir.

Handtekinn vegna fíkniefnasmygls

Maðurinn var handtekinn ásamt þremur öðrum árið 2017 vegna gruns um aðild að stórfelldum fíkniefnainnflutningi ásamt þremur öðrum. Tollverðir fundu amfetamínbasa í bifreið sem kom til landsins með mönnunum þremur sem um ræðir með Norrænu.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa undirbúið komu þremenninganna og hafa útvegað þeim gistingu og bílskúr sem átti að nota til þess að fjarlægja efnið úr bílnum.

Maðurinn var sýknaður fyrir dómi, þar sem ekki taldist sannað að hann hafi vitað af fíkniefnunum í bílnum. Hann höfðaði í kjölfarið mál á heldur íslenska ríkinu og krafðist miskabóta auk skaðabóta vegna tapaðra launatekna.

Glími við áfallastreituröskun

Alls krafðist maðurinn rúmri 41 milljón króna og var á því reist að hann hafi verið sviptur frelsi sínu með ólögmætum hætti í rúma sjö mánuði. Einnig lagði maðurinn fram vottorð sálfræðings frá árinu 2019 um að hann hafi glímt við áfallastreituröskun, þunglyndi og kvíða sem rekja mætti til gæsluvarðhaldsins.

Hann glími við svefnvandamál, samskipti við fjölskyldu og vini hafi versnað verulega, hann hafi misst fyrirtæki sitt, íbúð og fjármuni meðan hann dvaldi í fangelsi og hafi ekki getað æft þá íþrótt sem hann stundi reglulega. Auk þess hafi verið átakanlegt og ógnvekjandi fyrir manninn að dvelja í fangelsi.

Hvorki Héraðsdómur Reykjaness né Landsréttur féllust á kröfur mannsins vegna tapaðra launatekna en féllust á áðurnefndar miskabætur.

Lesa má dóminn í heild sinni á vef Landsréttar hér.

mbl.is