Margir vilja droppa í brúðkaup 22.02.22

Guðrún Karls Helgudóttir.
Guðrún Karls Helgudóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Minnst fimm pör hafa þegar skráð sig og vilja verða gefin saman í Grafarvogskirkju hinn 22. febrúar næstkomandi. Þann dag verða í kirkjunni svonefnd „drop-in-brúðkaup“, það er að fólk getur komið þangað inn og látið gefa sig saman í heilagt hjónaband við látlausa athöfn. Sama var gert í kirkjunni 26. júní á síðasta ári, en þann dag voru giftingarathafnirnar alls 20.

Drífa í hlutunum

„Stundum hefur fólk verið saman í langan tíma og hugsanlega rætt giftingu, sem aldrei hefur orðið af. Að droppa við í kirkjunni og drífa í hlutunum getur þá verið málið, eins og reynt er að svara með þessari dagskrá. Droppað við í kirkjunni og málið afgreitt,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju. Í gær höfðu fimm pör stimplað sig inn og sagst myndu mæta í kirkjuna til athafnar á umræddum degi, það er 22.2.22. Áður þarf fólk að bóka sig með því að senda tölvupóst eða hringja í presta kirkjunnar og þegar að stóra deginum kemur þurfa nauðsynlegustu pappírar og vottorð að vera í vasa.

„Dagsetningin er skemmtileg talnaruna sem auðvelt er að muna. Einhver vilja sjálfsagt velja daginn út frá því, þriðjudag í febrúar sem er hverdagsleikinn í sinni tærustu mynd,“ segir Guðrún. Sami háttur verður hafður í Akraneskirkju og í Grafarvogi á umræddum degi; það er drop-in-brúðkaup og hafa prestar kirknanna verið í samtali um útfærslur og fyrirkomulag.

Málvöndunarmenn hafa sumir hverjir, skv. heimildum Morgunblaðsins, gert fyrirvara við enskuskotna mállýsku, að talað sé um „drop-in-brúðkaup“. Þeir telja að hljómmikil íslensk orð hæfi betur, rétt eins og sóknarpresturinn tekur undir. „Já, ég kannast alveg við þessi sjónarmið og við reyndum fyrir athafnadaginn í fyrra meðal annars í samstarfi við íslenskufræðinga og raunar fleiri að finna gott íslenskt heiti. Vandinn þá var hins vegar sá að þær tillögur að nöfnum sem við vorum með á blaði mátti misskilja eða snúa út úr. Við ákváðum því að halda okkur við dropp-heitið – sem allir skilja sem vilja,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »