Þétting byggðar og ný hverfi í Kópavogi

Gert er ráð fyrir að um 5.600 íbúðir verði reistar …
Gert er ráð fyrir að um 5.600 íbúðir verði reistar í Kópavogi á næstu tuttugu árum. Ljósmynd/Aðsend

Gert er ráð fyrir að um 5.600 íbúðir verði reistar í Kópavogi á næstu tuttugu árum. Það þýðir að íbúum í bænum muni fjölga um 15.000, að því er segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Hverfin þar sem gert er ráð fyrir flestum nýjum íbúðum eru Kársnes, miðbær Kópavogs, Smárinn, Glaðheimar, Vatnsendahvarf og Vatnsendahlíð en tvö síðastnefndu hverfin eru ný.

Hefja skipulagningu á nýjum hverfum

Skipulagning á Vatnsendahvarfi er þegar hafin þar sem áætlað er að reisa 500 íbúðir, bæði sérbýli og fjölbýli. Þá er stefnt að því að hefja skipulagsvinnu í Vatnsendahlíð á næstu árum.

Á Kársnesinu er gert ráð fyrir 1.390 nýjum íbúðum og 1.600 á miðbæjarsvæðinu. Þá er áætlað að um 760 íbúðir verði reistar í Smáranum.

Í Glaðheimum hefur verið skipulagður nýr hverfishluti með 500 íbúðum ásamt bæjargarði og fjölbreyttu verslunar- og þjónustuhúsnæði.

Kortið sýnir helstu uppbyggingarsvæði í Kópavogi.
Kortið sýnir helstu uppbyggingarsvæði í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

„Það er stórhugur í Kópavogi og við erum hér bæði að vinna með þéttingu byggðar og ný hverfi. Við sjáum að það hefur verið mikil ánægja með nýtt húsnæði sem hefur risið undanfarin ár, í Smáranum, austari hluta Glaðheima og svo á Kársnesinu,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, í tilkynningunni.

Skipulagsáform verða kynnt á sýningunni Verk og vit sem hefst í Laugardalshöll í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert