Verðbólguhorfur versnað

Hækkanir á verði húsnæðist hafa reynst þrálátar.
Hækkanir á verði húsnæðist hafa reynst þrálátar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Búist er við að verðbólga verði 5,9% að meðaltali í ár en hjaðni í 3,5% á næsta ári. Hækkanir á verði húsnæðis hafa reynst þrálátar, þá hafa hrávörur einnig hækkað hratt vegna átakanna í Úkraínu og óvissa um verðþróun erlendis aukist. Þetta kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

Þar segir einnig að staða á vinnumarkaði í upphafi árs hafi verið sterk en áætlað er að atvinnuleysi verði 4,3% að meðaltali á árinu. Þá varð kaupmáttur launa sterkari á síðasta ári þegar hann jókst um 3,7% en vegna aukinnar verðbólgu er gert ráð fyrir að hann aukist um 1% í ár.

Aukin óvissa vegna stríðsins

Búist er við að hagvöxtur muni einnig lækka á næstu tveimur árum. Talið er að hann verði 4,6% í ár en muni lækka um tæp tvö prósentustig á næsta ári, eða niður í 2,7%. Á þar næsta ári lækkar hann enn frekar og verður kominn í 2,2%.

Í þjóðhagsspánni kemur fram að óvissa vegna kórónuveirufaraldursins hafi vissulega minnkað en á móti kemur að aukin óvissa er nú vegna innrásar Rússa í Úkraínu og afleiðinga stríðsins á heimshagkerfið.

Útflutningur muni vaxa um 16%

Þá er reiknað með að einkaneysla aukist um 4,2% í ár og 3,4% árið 2023. Búist er við að fjárfestingar muni vaxa um 5% en hægja mun á þeirri þróun á næsta ári, m.a. vegna minni fjárfestingar í skipum og flugvélum. 

Horfur eru á að útflutningur vaxi um 16% í ár og 5,8% á því næsta, má m.a. rekja þá þróun til bata í ferðaþjónustu. Þá er reiknað með 12,4% aukningu innflutnings í ár og 4,9% á því næsta, er það m.a. vegna meiri neyslu Íslendinga erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert