Engin efnismeðferð ef vernd er þegar til staðar

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á meðal helstu breytinga í nýju frumvarpi á Alþingi um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga er að ef umsækjandi hefur þegar fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki er málið ekki tekið til efnismeðferðar í samræmi við evrópskt samstarf um að einstaklingar hljóti alþjóðlega vernd í aðeins einu ríki.

Heimilt er þó að víkja frá þeirri meginreglu ef vernd viðkomandi er ekki virk og ekki má senda fólk þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. Við mat á því hvort útlendingur njóti virkrar alþjóðlegrar verndar í öðru ríki skal einnig litið til þess hvort hann njóti í reynd þeirra grundvallarréttinda sem lög viðkomandi ríkis mæla fyrir um að einstaklingar með alþjóðlega vernd eigi að njóta.

Aðstæður og ástand í móttökuríki er því alltaf kannað í þessum málum, að því er segir í tilkynningu.

Markmið lagabreytinganna er að greiða götu þeirra útlendinga sem eiga rétt á alþjóðlegri vernd á Íslandi og létta álaginu á afgreiðslukerfi verndarmála í báða enda.

Einnig er gerð sú breyting að útlendingar sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla við landið verði undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi. Er þetta lagt fram í þeim tilgangi að draga úr skilyrðum og einfalda atvinnuþátttöku einstaklinga í þessari stöðu.

Ákvæðið mun einnig gilda fyrir þá sem fengið hafa vernd á grundvelli 44. gr. útlendingalaga sem eru þeir flóttamenn sem flúið hafa átökin í Úkraínu. Úkraínskir flóttamenn fá því sjálfkrafa atvinnuleyfi þegar þeir koma til landsins og fá hér vernd.

Þá eru lagðar til breytingar til að skýra frekar þau réttindi sem útlendingum, sem lögum samkvæmt ber að fara af landi brott, stendur til boða. Þannig munu þeir njóta áfram fullra réttinda þar til þeir hafa farið en að hámarki í 30 daga frá endanlegri ákvörðun stjórnvalda. Frá þeim tímafresti falla öll réttindi þeirra niður.

Þó verður ekki heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlegra veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Þá gerir greinin ráð fyrir að heimilt verði að fresta niðurfellingu réttinda ef sanngirnissjónarmið mæla með því, t.a.m. vegna erfiðleika við að fara af landi brott sem ekki fæst ráðið við.

Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á framkvæmd mats á hagsmunum barna sem sækja um alþjóðlega vernd í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Meðal annars er gert ráð fyrir að settar verði reglur um framkvæmd matsins. Áhersla er lögð á réttindi barna og þjálfun og stuðning við starfsmenn sem taka ákvarðanir í málum sem varða börn.

Enn fremur er í frumvarpinu bráðabirgðaákvæði sem kveður á um tímabundna skyldu útlendinga til að undirgangast sýnatöku vegna Covid-19 ef það er talið nauðsynlegt við brottvísun þeirra úr landi, en reglur einstakra ríkja og flugfélaga um framvísun neikvæðs PCR-prófs eru enn virkar í sumum tilfellum.

Ákvæðið gildir til 30. júní árið 2023, afmarkað og tímabundið við PCR-sýnatöku og viðbrögð við Covid. Neiti útlendingur að fara í slíkt próf verður lögreglu heimilt að bera kröfu undir dómara svo unnt sé að framkvæma prófið.

Loks gerir frumvarpið ráð fyrir að tilteknar ákvarðanir Útlendingastofnunar sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála og að sérstök málsmeðferð að fyrirmynd annarra Evrópuríkja gildi um beiðnir útlendinga um endurupptöku á umsóknum sínum um alþjóðlega vernd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert