Stjórnarflokkarnir missa allir fylgi

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn stjórnarflokkanna …
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn stjórnarflokkanna þriggja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og VG, missa allir fylgi samkvæmt nýrri könnun Maskínu en samkvæmt henni myndu flokkarnir ekki ná að mynda meirihluta á Alþingi.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem mælist stærstur flokka, er nú með 21% fylgi sem er 2 prósentustigum minna en flokkurinn var með í Maskínukönnun marsmánaðar. Framsóknarflokkurinn gefur sömuleiðis eftir og mælist nú með 14-15% en var með rúmlega 17% í síðasta mánuði. Vinstri græn dala aðeins um hálft prósentustig með mælast nú með 7%.

Ljósmynd/Maskína

Þegar fylgi flokkanna er skoðað annars vegar fyrir og hins vegar eftir nýliðna atburði sést að ríkisstjórnarflokkarnir mælast hver með tæplega 2–3 prósentustigum minna fylgi eftir en fyrir sölu Íslandsbanka og Búnaðarþing

„Það gerir samanlagt fylgi upp á 41–42% eftir atburðina,“ segir á vef Maskínu.

Það er áhugavert að sjá að þegar fylgið er skoðað fyrir og eftir Búnaðarþing og söluna á Íslandsbanka eru það Píratar og Samfylkingin sem bæta mestu við sig. Samfylkingin mælist rúmlega 4 prósentustigum stærri eftir þá atburði en fyrir og Píratar tæpum 7 prósentustigum stærri heldur en fyrir nýliðna atburði,“ segir enn fremur á vef Maskínu.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.367, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 17. mars til 12. apríl 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert