Réðust á mann og reyndu að fá hann til að millifæra

mbl.is/Arnþór Birkisson

Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Tilkynnt var um þrjár líkamsárásir. Þrír réðust á einn mann í Kópavogi í gærkvöldi og þá réðust tveir menn á einn í Reykjavík þar sem þeir reyndu ennfremur að fá manninn til að millifæra peninga. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. 

Greint er frá því að kl. 18:45 í gærkvöldi hafi verið tilkynnt um líkamsárás og ránstilraun í hverfi 104 í Reykjavík, sem er við Laugardal. Þar réðust tveir menn á einn og reyndu að fá hann til að millifæra á þá peninga, sem fyrr segir. Maðurinn sem varð fyrir árásinni leitaði aðstoðar á slysadeild. Málið er í rannsókn.

Kl. 21:02 í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í Kópavogi.  Þrír menn réðust þar á einn með höggum og spörkum.  Maðurinn sem varð fyrir áráásinni hlaut áverka í andliti og víðar.  Árásarmennirnir voru farnir á brott þegar lögreglu bar að garði en maðurinn sem ráðist var á kvaðst þekkja mennina.  Málið er í rannsókn.

Þá var tilkynnt um líkamsárás í hverfi 104 23:16 í gærkvöldi. Þar hafði öryggisvörður á tónleikum vísað manni úr húsi þegar maðurinn brást við með því að kýla öryggisvörðinn ítrekað í andlitið. Árásarmaðurinn náði að komast á brott í leigubifreið.

mbl.is