Eitt frægasta vörumerkið á förum frá Rússlandi

McDonald´s í miðborg Moskvu.
McDonald´s í miðborg Moskvu. AFP

Bandaríska hamborgarakeðjan McDonald's er á förum frá Rússlandi, samkvæmt frétt í dagblaðinu kunna, New York Times. 

McDonalds er eitt frægasta vörumerki heims og hefur merki fyrirtækisins stundum verið kastað fram sem einu af táknum kapítalismans. Þar af leiðandi voru borgararnir ekki fáanlegir í kommúnistaríkinu Sovétríkjunum en hafa nú verið fáanlegir í Rússlandi í liðlega þrjá áratugi.

McDonald's lokaði í mars og setti þá starfsemina á ís, eins og svo mörg fyrirtæki gerðu vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Mörg alþjóðleg fyrirtæki bíða enn átekta en svo virðist sem McDonald's hafi tekið af skarið og ákveðið að yfirgefa Rússland. Eignir keðjunnar í Rússlandi hafa verið settar á sölu. 

„Því má halda fram að rétt sé að bjóða upp á auðvelt aðgengi að mat og halda áfram að skaffa störf fyrir tugi þúsunda. En það er bara ekki hægt að horfa framhjá hjá þeim hörmungum sem stríðið í Úkraínu veldur,“ segir meðal annars í skilaboðum til starfsmanna frá Chris Kempczinski, framkvæmdastjóra McDonald's, sem New York Times birti. 

Keðjan hefur rekið 850 staði í Rússlandi og þar störfuðu um 62 þúsund manns. 

mbl.is