Munu gera kröfu um að tjónið verði bætt

Listaverkið sem stóð við Marshallhúsið hefur vakið mikið umtal. Stolin …
Listaverkið sem stóð við Marshallhúsið hefur vakið mikið umtal. Stolin stytta Ásmundar Sveinssonar var inni í eldflauginni. Ljósmynd/Steinunn Gunnlaugsdóttir

Kristinn Jónasson segir að Guðríðar-og Langabrekkuhópurinn muni gera kröfu um að þeim verði bætt það tjón sem þau hafa orðið fyrir vegna þjófnaðarins á styttunni af Guðríði Þorbjarnardóttur eftir Ásmund Sveinsson. 

Styttan er aftur komin á Snæfellsnesið eftir dómsúrskurð en hefur ekki verið sett upp á ný. 

„Það fylgir þessu ýmis konar kostnaður fyrir utan það að mikill tími hefur farið í þetta hjá mér. Það er eiginlega ótrúlegt að þurfa að finna gögn til að sanna eignarhaldið á styttunni en ég þurfti að gera það. Því fylgir kostnaður að sækja styttuna og láta setja hana aftur á sinn stað. Við fórum tveir menn í gær að sækja styttuna og það þarf að útbúa festingar. Auðvitað munum við gera kröfu um að okkur verði bætt það tjón sem við höfum sannarlega orðið fyrir,“ sagði Kristinn þegar mbl.is spurði hann út í þetta atriði í dag. 

Kristinn tekur skýrt fram að hann hafi ekki séð það fyrir sér í upphafi enda geti fólki dottið ýmislegt í hug sem það sjái síðar að hafi ekki verið skynsamlegt. Þá sé sá möguleiki fyrir hendi að sýna iðrun. 

„Í upphafi málsins vorum alveg tilbúin til að láta gott heita ef fólk bæðist afsökunar og skilaði styttunni eftir að hafa náð þeirri athygli sem það vildi. En það vildi ekkert við okkur tala. Við buðum fram hinn vangann en því var ekki vel tekið og nánast látið eins og það kæmi okkur ekkert við að verkinu væri stolið af okkur. Viðbrögð þeirra við okkar málaleitan fannst okkur mjög sérstök og þess vegna ætlum við ekki að gefa eftir.“

Óljóst hvenær styttan verður sett upp á ný

Eins og fram kom hjá Kristni er búið að sækja styttuna til Reykjavíkur. Kom hún við í vélsmiðjunni Steðja á Akranesi þar sem hún var tekin úr eldflauginni. Frekari vinna er framundan og því er ekki vitað hvenær styttan fer aftur á sinn stað. 

Kristinn Jónasson.
Kristinn Jónasson. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við erum komin með styttuna heim og nú þarf að finna út úr því hvernig við getum búið til nýjar festingar. Ekki verður hægt að nota sömu festingar og voru notaðar áður. Styttan stóð á stóru grjóti en festingarnar sem voru steyptar ofan í steininn voru skornar í sundur. Til þess hefur verið notaður slípirokkur. Við þurfum því að láta útbúa nýjar festingar, bora ofan í steininni og steypa festingarnar sem styttan verður fest á.

Ég á eftir að ræða við mínar ágætu samstarfskonur sem eru með mér í þessum hópi, Guðrúnu Bergmann og Ragnhildi Sigurðardóttur, um hvort við gerum ekki eitthvað skemmtilegt þegar við loksins förum og setjum styttuna upp aftur,“ sagði Kristinn í samtali við mbl.is en hann er einnig bæjarstjóri í Snæfellsbæ sem kunnugt er. 

mbl.is