49 ára aldursmunur á skólastjórunum

Marta María og Margrét hafa átt skemmtilega tíma saman síðustu …
Marta María og Margrét hafa átt skemmtilega tíma saman síðustu vikur í „skólastjóraskólanum“.

49 ára aldursmunur er á fráfarandi og verðandi skólastjórum Hússtjórnarskólans í Reykjavík. Það kemur þó ekki í veg fyrir að þær nái vel saman og segir verðandi skólastjóri, sem tekur við í byrjun júní, frábært að fá að læra af fráfarandi skólastjóra.

„Ég hafði hugsað til þessa í þó nokkur ár en hafði í huga að sækja um þegar ég yrði eldri. Hins vegar stóðst ég ekki mátið þegar staðan var auglýst nú á vordögum, þannig að ég prófaði að sækja um og hér er ég,“ segir Marta María Arnarsdóttir, nýráðinn skólastjóri Hússtjórnarskólans. Hún er einungis 25 ára gömul og lítur mikið upp til fráfarandi skólastjóra, Margrétar Sigfúsdóttur.

„Margrét er svo stórkostlegur karakter og góð kona,“ segir Marta María.

Margrét eys úr sínum viskubrunni

Hún gekk í skólann á vorönn 2015 og segir að það hafi verið besta önn lífs síns.

„Hér fær maður tíma til þess að læra og gera allt sem mann langar til að gera í hversdagsleikanum en hefur ekki tíma til að gera. Hér lærir maður alls konar handverk; vefnað, fatasaum, útsaum, prjón og hekl en líka að halda heimili og stórar veislur, elda góðan mat, ræstingu, vörufræði og næringarfræði,“ segir Marta María og bætir því við að nemendur Hússtjórnarskólans búi að því út lífið að hafa lært réttu handtökin í skólanum.

Að mörgu er að huga fyrir nýjan skólastjóra og hefur Marta María því fylgt Margréti hvert fótmál í skólanum frá 1. maí síðastliðnum. Kalla þær þessa kennslu til gamans „skólastjóraskólann“.

„Hún býr yfir alveg ótrúlega mikilli visku um allt sem viðkemur hússtjórnarskólanum og er góð að deila henni með mér og öðrum,“ segir Marta María.

Ætlar ekki að ráðast í neinar stórkostlegar breytingar

Aðspurð segir Marta að hún ætli ekki að ráðast í neinar stórvægilegar breytingar á starfsháttum skólans.

„Ég ætla ekki að koma hérna inn eins og stormsveipur og breyta öllu. Með nýjum stjórnanda koma auðvitað einhverjar breytingar en þær koma þá bara hægt og rólega. Ég ætla bara að fara rólega inn í þetta nýja starf og taka vel ígrundaðar ákvarðanir ef ég ætla að breyta einhverju,“ segir Marta.

Hússtjórnarskólinn eigi vel við í dag

Hún segir að skólinn standist vel tímans tönn. Námið sem boðið er upp á þar eigi ekki síður við í dag en áður, sérstaklega ef litið er til aukinnar áherslu á umhverfisvernd í samtímanum.

„Í dag er svo mikið talað um sjálfbærni og nýtni og það eru einmitt einkunnarorð skólans,“ segir Marta María.

Hún gengur til liðs við Hússtjórnarskólann úr öðru stjórnunarstarfi en hún stýrði kórónuveirusýnatökum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut 34 í heimsfaraldrinum. Marta María telur að reynslan sem hún hlaut þar muni nýtast henni í nýja starfinu. Þar var hún yfir 200 starfsmönnum, þurfti að vera snögg að aðlagast breytingum og vera tilbúin í mikið álag. Hún segir þó ekki alveg skilið við heilsugæsluna fyrr en í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert