Miðinn fældi burt unglingspiltana

Miðinn hefur vakið töluverða athygli.
Miðinn hefur vakið töluverða athygli. Skjáskot/Facebook

Ágengir unglingspiltar og hlutlægar ábyrgðarreglur eru ástæðan fyrir því að íbúar í Granaskóli settu miða á trampólín í botnlanga götunnar, sem valdið hefur usla í facebook hóp Vesturbæinga. 

Hið umdeilda trampólin var keypt af einum íbúa götunnar og sett upp fyrir nokkrum árum. Voru þá engar takmarkanir á því hverjir mættu nota það.

Þegar ásókn jókst varð íbúum í Granaskjóli ljóst að þeir væru ábyrgir, sem eigendur trampólínsins, af slysum sem kynnu að verða vegna notkunar þess.

Hver bæri ábyrgð á eigin börnum

Þess má geta að um er að ræða einkalóð í sameign húseigenda botnlangans. Íbúarnir hafa annast umhirðu á lóðinni og keypt öll leiktæki, þar á meðal rólurnar. 

Íbúi í Granaskjóli, sem ekki vill láta nafn síns getið af ótta við persónulegar árásir,  segir að þó óskastaðan sé sú að leiktækin yrðu opin öllum sé mikilvægt að hafa ábyrgðarreglur í huga.

Þega trampólínið var sett upp hafi íbúar í Granaskjóli rætt sín á milli og samþykkt að hver og einn bæri ábyrgð á sínum börnum og þeirra vinum. 

Taka trampólínið niður eða leita annarra leiða

Þá segir íbúinn frá því að unglingspiltar hafi farið að venja komur sínar í botnlangann til að nota trampólínið og ónáða íbúa. 

„Þeir komu í veg fyrir að börnin í hverfinu gætu hoppað, köstuðu steinum í húsin, hringdu dyrabjöllum seint á kvöldin og spörkuðu í útidyrahurðir og vöktu börnin. Ítrekað reyndu húseigendur að ræða við drengina en ekkert gekk og sóttu þeir raun enn meira í botnlangann eftir að reynt var að ræða við þá. Á endanum var einnig haft samband við lögreglu sem hefur því miður ekki tekist að ná í skottið á þeim.“

Íbúar hafi þá staðið frammi fyrir þeim möguleika að taka trampólínið niður eða leita annarra leiða. Miðinn var settur upp, meðal annars til þess að koma í veg fyrir ásókn umræddra unglingspilta.  

Að sögn íbúa bar það árangur, enda höfðu unglingarnir oft haldið því fram að um almenningslóð væri að ræða, en þeir hafi dregið í land með þær fullyrðingar eftir að miðinn var settur upp. 

„Þeir koma núna minna, en þó öðru hverju og sparka í hurðir og eru með læti.“




 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert