Enginn gosórói mælist

Jarðskjálftarnir tveir urðu suðvestan megin við Þorbjörn.
Jarðskjálftarnir tveir urðu suðvestan megin við Þorbjörn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það virðist vera að draga aðeins úr þessu [jarðskjálftavirkninni] núna en þetta kemur svona svolítið í hviðum,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um jarðskjálftavirknina á Reykjanesskaga en tveir snarpir skjálftar urðu rétt við Grindavík rétt fyrir klukkan tíu. 

Hún segir í samtali við mbl.is að enn séu nokkrir smáskjálftar á svæðinu.

„Núna er virknin ekki norðaustan megin við Grindavík heldur er hún komin vestnorðan megin við hana, eða suðvestan megin við Þorbjörn. Þetta er samt alveg í beinni línu við skjálftana,“ segir Sigríður Magnea og bætir við að þetta sé því nýr staður en ekki óþekktur fyrir skjálftavirkni. 

„Það voru skjálftar þarna fyrr í vikunni. Þannig að þetta hoppar svolítið til.“

Hún segir að enginn gosórói mælist en Veðurstofan fylgist áfram með stöðunni. 

„Það gýs þarna einhvern tímann, en vonandi ekki strax,“ segir Sigríður Magnea að lokum.

mbl.is