Mikil vinna liggur að baki

Vera Schneiderchen á Ramónu frá Hólshúsum og Birta Ingadóttir á …
Vera Schneiderchen á Ramónu frá Hólshúsum og Birta Ingadóttir á Fjólu frá Skipaskaga með verðlaun sín ásamt Hlíf Sturludóttur, móður Birtu, og Sigurbirni Magnússyni, stjórnarformanni Árvakurs. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Ég er ákaflega stolt. Það liggur mikil vinna að baki þessu í þrjú ár,“ segir Birta Ingadóttir úr Reykjavík, útskriftarnemi úr hestafræði við Háskólann á Hólum. Hún fékk verðlaun Morgunblaðsins, Morgunblaðshnakkinn, fyrir besta samanlagðan árangur í öllum reiðmennskuáföngum þau þrjú ár sem námið hefur staðið. Vera Evi Schneiderchen fékk reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna fyrir hæstu einkunn á þriðja ári námsins.

Verðlaunin voru afhent á reiðsýningu brautskráningarnema síðastliðinn laugardag. Sýningin markar endi námsins en brautskráning fer fram síðar. Sextán nemendur útskrifuðust úr hestafræðinni að þessu sinni og í fyrsta skipti í sögu háskólanámsins voru það eingöngu stúlkur. Við lok athafnarinnar klæddust nemendurnir hinum bláa einkennisfatnaði tamningamanna.

Mette Mannseth yfirreiðkennari sagði við kynningu á reiðsýningunni að árgangurinn hefði verið sterkur og afar mjótt á munum á milli efstu nemenda í keppninni um Morgunblaðshnakkinn. Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs sem gefur út Morgunblaðið, afhenti verðlaun blaðsins. Kom í ljós við afhendinguna að stjúpdóttir hans, Birta Ingadóttir, hafði unnið verðlaunin. Skemmtileg tilviljun það.

Lengri umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert