Þingmaður skýtur á borgarstjóra

Eyjólfur Ármannsson.
Eyjólfur Ármannsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eyjólfur Ármansson, þingmaður Flokks fólksins, skýtur nokkuð föstum skotum á borgarstjórann í Reykjavík, Dag B. Eggertsson, í aðsendri grein í dag. 

Greinin birtist á vef Bæjarins Besta en Eyjólfur er þingmaður fyrir Norðvesturkjördæmi. Í greininni setur Eyjólfur fram þá skoðun að framkvæmdir við Sundabraut þurfi að hefjast sem allra fyrst og segir Flokk fólksins styðja lagningu Sundabrautar. Hún sé þjóðhagslega hagkvæmasta vegaframkvæmdin sem völ sé á í dag.

Gerð Sundabrautar hefur tafist allt of lengi. Hún hefur verið á teikniborðinu í áratugi og hefur ítrekað verið til umræðu í aðdraganda borgarstjórnarkosninga sem mikilvæg framkvæmd fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið. Undir stjórn núverandi meirihluta hefur verið holur hljómur í atfylgi borgarstjórnar við Sundabraut. Ástæða er til að óttast að um sé að ræða sýndarstuðning og að vísvitandi tafir tengist aðför borgarstjórnarmeirihlutans að bílnotendum. Undarleg stefna það í samgöngumálum og nokkuð sem borgarbúar upplifa daglega í umferðinni, sitjandi drjúga dagstund í bílalestum til og frá vinnu,“ segir Eyjólfur meðal annars í greininni og segir borgarstjórann hafa komist upp með að segja ekki álit sitt á Sundabrautinni. 

„Borgarstjórinn í Reykjavík hefur komist alltof lengi upp með að taka ekki ákvörðun hvort Reykjavíkurborg vilji að reist verði Sundabrú eða lögð Sundagöng. Engin ákvörðun hefur verið tekin um það þrátt fyrir alla umræðuna og skýrslurnar. Lágmark væri ef borgarstjóri svaraði því fyrir borgarstjórnarkosningarnar hvor hann vilji Sundabrú eða Sundagöng eða hvort hann sé bara að þykjast enn einu sinni.“

Greinin í heild sinni

mbl.is