Systur dúxuðu með 10 ára millibili

Guðbjörg Alma fyrir utan Kvennaskólann í Reykjavík.
Guðbjörg Alma fyrir utan Kvennaskólann í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Guðbjörg Alma Sigurðardóttir útskrifaðist úr Kvennaskólanum í Reykjavík síðasta miðvikudag og var önnur tveggja dúxa. Það sem vekur sérstaka athygli er að systir Guðbjargar, Guðrún Þóra Sigurðardóttir, dúxaði í skólanum fyrir 10 árum.

Ásamt Guðbjörgu dúxaði Alfa Magdalena Birnir Jórunnardóttir en báðar voru þær með 9,93 í meðaleinkunn.

Guðbjörg segist í samtali við mbl.is vera mjög stolt af sjálfri sér. Árangurinn hafi hins vegar ekki beint komið á óvart. „Ég var að reyna að búast ekki við þessu,“ segir hún og bætir við að það hafi alltaf verið í aftast í hausnum á henni að reyna að ná þessum árangri.

Þá segir hún lykilinn að námsárangrinum vera að fylgjast vel með í tímum og segist hún sjálf hafa notað Quizlet mjög mikið.

Systirin fyrirmynd í náminu

Guðbjörg segir fjölskyldumeðlimi hafa sérstaklega gaman af því að systurnar skuli hafa dúxað og það með 10 ára millibili.

Þá hafi Guðrún systir hennar verið eins konar fyrirmynd sín í náminu og þegar hún dúxaði 2012 hafi Guðbjörg komist að því hvað það væri að vera dúx. Fyrir það hafi hún ekki vitað að það væri mögulegt.

„Þá var ég svona: „Ú þetta er skemmtilegt,““ bætir Guðbjörg við.

Aðspurð segir Guðbjörg að hún ætli sér líklega að taka pásu í haust og prófa að gera eitthvað annað en læra. Þá nefnir hún möguleikann á að fara í lýðháskóla eða þá feta í fótspor systur sinnar og fara í Hússtjórnarskólann í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert