Herjólfur III kominn til Færeyja

Herjólfur í brælu á leið til lands frá Eyjum.
Herjólfur í brælu á leið til lands frá Eyjum. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Herjólfur III hefur verið leigður til Færeyja og er hann kominn í slipp þangað. Leigutaki er Strandfaraskip landsins, sem rekur ferjur og almenningsvagna í Færeyjum. 

Þetta segir Halldór Jörgensson, forstöðumaður almenningssamgangna hjá Vegagerðinni. 

Komin góð reynsla á rafmagnaðan Herjólf

Leigusamningurinn gildir til september 2023, með því fororði að Herjólfur III muni leysa Herjólf IV af, þegar hann fer í slipp. 

Nýr Herjólfur (fjórði) var tekinn í notkun árið 2018 og er, sem þekkt er orðið, fyrsta rafknúna ferjan á Íslandi. Við gangsetningu nýja Herjólfs var ákveðið að halda eldri Herjólfi hér á landi til vara, skildi hökt verða í rekstri og siglingu nýja rafknúna Herjólfs. 

„Núna er komin mjög góð reynsla á það. Fyrir utan það er betra að hafa svona skip í vinnu, einhvers staðar í gangi, í stað þess að hafa það bundið við bryggju,“ segir Halldór. 

Spurður nánar út í hlutverk Herjólfs þriðja í Færeyjum segir Halldór að hann muni gegna hlutverki varaskips. „Hann verður notaður við vöruflutninga á milli eyja,“ en til taks til að sinna fólksflutningum ef svo ber undir. 

Þarf að hreyfa skip 

„Það er mjög gott að vinna með Færeyingunum í þessum málum, því að það er ekki gott að hafa svona skip bundið við bryggju. Það þarf að hreyfa þau, svo þau séu alltaf til taks.“

Þá segir Halldór að ekki hafi komið til þess að mikið hafi þurft að nýta Herjólf III á meðan hann var til taks á fyrstu árum nýja Herjólfs. Gangsetning og keyrsla nýs Herjólfs hafi gengið vel. 

Nýi Herjólfur fer í slipp í haust og mun því sá gamli leysa hann af á meðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert