Tvíburar báðar dúxar

Tvíburasysturnar Þóra Kristín Stefánsdóttir og Ásrún Adda Stefánsdóttir voru dúxar …
Tvíburasysturnar Þóra Kristín Stefánsdóttir og Ásrún Adda Stefánsdóttir voru dúxar Menntaskóla Borgarfjarðar. Ljósmynd/Aðsend

Tvíburasysturnar Þóra Kristín Stefánsdóttir og Ásrún Adda Stefánsdóttir, nemendur á opinni braut, voru dúxar Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi, en á föstudag fór fram útskrift í skólanum. Þær eru báðar með 9,32 í meðaleinkunn og fengu fyrir það viðurkenningu frá Arion banka fyrir bestan námsárangur á stúdentsprófi.

Sömu áhugamál

Það kom skemmtilega á óvart að sögn systranna að þær skyldu hafa hlotið dúxinn sameiginlega, en í gegnum námið höfðu þær oft hlotið ólíkar einkunnir. Spurðar hvað muni taka við að loknu námi segjast þær opnar fyrir öllu.

„Við höfum svolítið sömu áhugamál, þannig að það er líklegt að við förum í eitthvað svipað nám. Gæti verið eitthvað tengt íþróttum, og svo hef ég til dæmis áhuga á umhverfismálum, þannig að það gæti verið líka eitthvað sem væri í boði,“ segir Þóra, en Ásrún kveðst einnig hafa áhuga á umhverfismálum.  

Drifkraftur út lífið

Útskriftarveislan var haldinn daginn eftir útskrift, en veislan heppnaðist að öllu leyti. Auk þess var veislan haldin sameiginlega með frænku þeirra sem einnig lauk stúdentsprófi við Menntaskóla Borgarfjarðar. Systurnar eru samrýmdar að mörgu leyti, t.d. hafa þær stundað sömu íþróttir og tekið sömu áfanga í skólanum. Þær segjast vera ánægðar með að hafa hlotið dúxinn sameiginlega en að það sé alltaf einhver samkeppni, en þær telja að það að eiga tvíbura sé drifkraftur út lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert