Ráðherra segir nálægð Rússa ekki útilokaða

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í samstarfi við aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og með rekstri ratsjárkerfa bandalagsins hér á landi kappkosta stjórnvöld að hafa sem gleggstar upplýsingar um umferð í námunda við Ísland í lofti og á legi.“ Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við Morgunblaðið en til umræðu er frétt blaðsins í gær af rússneskum kafbátum sem þykja nú færa sig mjög upp á skaftið við breska landhelgi, halda þar úti njósnum og dyljast með því að sigla undir togurum.

Kveður ráðherra sjóher Bandaríkjanna hafa sinnt kafbátaeftirliti frá Íslandi með það fyrir augum að afla upplýsinga um ferðir kafbáta um Norður-Atlantshafið frá árinu 2014. „Á síðasta ári voru flugvélar bandaríska sjóhersins við kafbátaeftirlit hér við land flesta daga ársins en voru 21 dag árið 2014. Þessi fjölgun eftirlitsdaga er skýrt teikn um þær breytingar sem hafa orðið á öryggisumhverfi Íslands,“ segir Þórdís.

Mikilvægur hlekkur

Hún segir ekki hægt að útiloka að rússnesk herför fari að nálgast íslenskt yfirráðasvæði nú þegar Rússar gera sig svo digra við nágrannaríkin, ýmist með beinum hernaðaraðgerðum í Úkraínu eða með ógnandi tilburðum rétt utan við yfirráðasvæði ríkja, en fyrir utan fregnir frá Bretlandi greindi mbl.is frá því á föstudag að rússneskt herskip hefði tvívegis siglt inn í danska landhelgi og eins má líta til stöðugrar umferðar Rússa rétt utan við norska landhelgi þar sem heilu heræfingarnar eru haldnar með aðkomu nýrra fullkominna kafbáta.

„Eftirlit úr lofti, eins og það sem Bandaríkin sinna frá Íslandi, er mjög mikilvægur hlekkur í vörnum Íslands og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins,“ segir ráðherra og bendir á að Ísland leggi sitt af mörkum til eftirlitsins með því að veita gistiríkisstuðning við þau bandalagsríki sem sinna eftirlitinu héðan auk þess að tryggja að hér á landi sé fyrir hendi þekking, geta og búnaður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert