Þrjú rafskútuslys í kvöld og nótt

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk þrjár tilkynningar um rafskútuslys í gærkvöldi og í nótt og þurfti í öllum tilfellum að flytja fólk með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðadeild. Meiðsli þess virðast þó ekki hafa verið alvarleg.

Kona datt af rafskútu í miðborg Reykjavíkur um klukkan níu í gærkvöldi og var hún talin hafa ökklabrotnað. 

Þá fékk lögregla tilkynningu um að maður hefði dottið af rafskútu í hverfi 104 rétt fyrir klukkan hálf eitt í nótt. Maðurinn var með meðvitund en var mjög ölvaður og gat ekki gefið upp nafn eða kennitölu vegna ölvunar. 

Maður datt einnig af rafskútu í Kópavogi um hálfáttaleytið í gærkvöldi og brotnaði hann illa á hægri handlegg.

Handlék hníf innan um ungmenni

Einnig var tilkynnt um umferðarslys í miðborginni um klukkan hálftvö í nótt. Ökumaður og farþegi voru fluttir með sjúkrabifreið á bráðadeild til aðhlynningar. Grunur er um ölvun við akstur og verða báðir aðilar handteknir og vistaðir í fangageymslu lögreglu að lokinni aðhlynningu. Bifreiðin var flutt af vettvangi með Króki. Þá var Orkuveita ræst út vegna tjóns á ljósastaur.

Um hálftólf gærkvöldi var tilkynnt um mann að handleika hníf innan um hóp ungmenna í Árbænum. Áður hafði verið tilkynnt að hann hefði komið út úr skóla þar sem þjófavarnarkerfi var í gangi.

Maðurinn var handtekinn og reyndist hann vera í annarlegu ástandi. Hann er grunaður um húsbrot, brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna og var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. 

mbl.is