Ríkið bendir á sveitarfélög vegna rafhlaupahjóla

Rafskútur hafa átt auknum vinsældum að fagna síðustu ár.
Rafskútur hafa átt auknum vinsældum að fagna síðustu ár. mbl.is/Hari

Til stendur að gera lagabreytingar varðandi rafhlaupahjól. Með þeim verður tekið á ungum aldri ökumanna þeirra sem og akstri undir áhrifum.

Ekki virðist þó standa til að breyta ákvæðum um umgengni hjólanna, sem mikið hefur verið í umræðunni. Í svari frá innviðaráðuneytinu segir að regluverk varðandi umgengni sé í höndum veghaldara og sveitarfélaga. 

Til stendur að innleiða nýjan ökutækjaflokk smáfarartækja í umferðarlög. Hraðari akstur en 25 km/klst á slíkum farartækjum verður áfram óheimill í umferð og bann lagt við því að breyta hraðastillingum þeirra.

Veghaldarar og sveitarfélög setji reglur um umgengni 

Blaðamaður mbl.is lagði þá spurningu fyrir innviðaráðuneytið hvort til stæði að koma á viðurlögum vegna slæmrar umgengni rafhlaupahjóla. Í svari upplýsingafulltrúa segir að óheimilt sé samkvæmt núgildandi lögum að leggja rafskútum þannig að hætta eða truflun stafi af. Ekki virðist standa til að breyta þeim ákvæðum eða bæta við viðurlögum. 

Í svarinu kemur einnig fram að veghöldurum sé heimilt í samráði við sveitarstjórn og lögreglu að setja sérákvæði um lagningu ökutækja. Ráðuneytið bendir einnig á að sveitarfélög geti kveðið á um frágang farartækjanna í þjónustusamningi. 

Ráðuneytið virðist því benda á veghaldara og sveitarfélög þegar kemur að reglum um frágang rafhlaupahjóla. Ríkið hyggist ekki beita sér á þeim vettvangi umfram núverandi lög.

Óheimilt að keyra undir áhrifum

Til stendur að setja hlutlæg viðmið um áfengismagn í blóði ökumanna. Bannað verður að aka undir áhrifum.

Núgildandi lög kveða á um að ekki megi vera undir svo miklum áhrifum að ekki sé hægt að stjórna rafskútu örugglega. Það er því matsatriði hvort ökumaður hafi gerst brotlegur við lög eða ekki. Því stendur til að breyta.

Ekki liggur fyrir hve háar sektirnar verða fyrir of hraðan akstur eða akstur undir áhrifum. 

Börn undir 13 ára megi ekki nota rafhlaupahjól

Hljóti frumvarpið samþykki verður börnum yngri en 13 ára óheimilt að nota rafhlaupahjól. Börnum yngri en 16 ára verður skylt að nota hjálm. Samkvæmt núgildandi lögum eru engin aldurstakmörk á rafhlaupahjólum. 

Í svari ráðuneytisins kemur fram að rétt þyki að lögin taki mið af sérstöðu farartækjanna en eins og mál standa teljast rafskútur til reiðhjóla í lögum.

Frumvarpið byggir á tillögum starfshóps um smáfarartæki og er að megninu til efnislega samhljóða frumvarpi sem ráðherra lagði fram á síðasta þingi. Efni þess er varðar smáfarartæki verður endurflutt og áætlað er að frumvarpið verði lagt fram í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert