Aflýst vegna hægagangs og „ástandsins í fluggeiranum“

Félagið missti út vél þegar rekist var í hana á …
Félagið missti út vél þegar rekist var í hana á útivelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfélaginu Play þykir það miður að flugi 50 dansstelpna á aldrinum 15 til 17 ára til Madrídar hafi verið aflýst í gær en óvíst er hvort allar stelpurnar komist til Spánar í langþráða keppni.

Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi Play, segir félagið hafi misst út vél vegna óhapps á útivelli þegar rekist var utan í vélina. Ekki hafi síðan tekist að gera við vélina í tæka tíð.

„Hún tefst í viðgerð út af hægagangi og ástandinu sem er í fluggeiranum í dag,“ segir Nadine í samtali við mbl.is.

25 stelpur af 50 eru komnar með flug og fljúga …
25 stelpur af 50 eru komnar með flug og fljúga út í dag. 25 fljúga vonandi út á morgun að sögn danskennara. Ljósmynd/Aðsend

Nadine segir flugfélagið með hátt í 30 flugferðir á hverjum einasta degi og fjögur þúsund farþega að meðaltali.

„Þegar ein vél dettur út þá verður bara keðjuverkun. Þá þurfum við bara því miður að fella út flug.“

Greiða mismuninn

Spurð út í verklag félagsins þegar kemur að niðurfelldum flugum segir Nadine allan gang á því.

„Farþegar geta fengið endurgreitt. Svo bjóðum við líka fólki að koma sér sjálft eftir einhverjum öðrum leiðum á áfangastaðinn. Við greiðum þá mismuninn, ef það er dýrara flug.“ Sú leið hafi verið farin í gær.

Varðandi upplýsingaflæði til farþega í tilfellum sem þessum segir Nadine að óhjákvæmilega sé mikið álag og reynt að svara sem fljótast. Skeyti séu send á alla samtímis.

Þá séu allir á fullu að reyna að koma fólki á áfangastað með öðrum leiðum, stundum sé það ekki hægt. Þá reyni félagið að upplýsa alla á sama tíma með smáskilaboðum og tölvupósti.

Kom ekki til innritunar

Skipuleggjendur dansferðarinnar umræddu gagnrýndu í gær að enginn starfsmaður flugfélagsins hefði verið í innritunarsalnum til að veita þeim upplýsingar.

Nadine segir flugfélagið vissulega með starfsmenn í flugstöðinni en þar sem fluginu var aflýst hafi ekki komið til innritunar.

„Við sendum út klukkan 11 að það yrði seinkun og að næstu upplýsingar kæmu klukkan þrjú,“ segir hún og bætir við að í þeim skilaboðum hafi fólk verið ráðið frá því að mæta upp í flugstöð.

„Starfsfólk Play var að gefa sér tíma til að finna út úr þessu, hvort hægt væri að koma fólki út einhvern vegin öðruvísi eða hvort hægt væri að finna út úr þessu á annan hátt sem síðan því miður var ekki hægt.“

25 af 50 í danshópnum eru komnar með flug til Spánar með ólíkum leiðum og fljúga út í dag. Reynt verður að fá flug fyrir hinar 25 stelpurnar á morgun en fyrsta keppnin er á hádegi á morgun, að sögn Helgu Hlínar Stefánsdóttur, danskennara í hópnum. 

mbl.is