„Dæmigert kerfissvar“ Eiríks

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristófer Liljar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, há­skóla-, iðnaðar-, og ný­sköp­un­ar­ráðherra, svarar Eiríki Rögnvaldssyni, pró­fess­or emer­it­us við Há­skóla Íslands, á Facebook sem sagði útskýringu hennar á kröfum um íslensku og/eða enskukunnáttu í starfi á vegum ráðuneytis síns vera „dæmigert pólitíkusasvar“.

„Eiríkur Rögnvaldsson segir útskýringu mína vera „dæmigert pólitíkusasvar” þegar ég útskýrði eðli starfsins og af hverju ég taldi í lagi að gera ekki kröfu um íslensku. En frá honum og fleirum kemur aftur á móti dæmigert kerfissvar, það virðist ekki vera neinn áhugi á því að ræða það hvernig við ættum að stjórna eða hafa lög og reglur, heldur bara við höfum aldrei gert þetta svona og skulum ekki byrja á því núna,“ segir í færslu Áslaugar.

Eins og greint hef­ur verið frá er krafa í aug­lýs­ing­unni um gott vald á ís­lensku og/​eða ensku. Þetta gagn­rýndi Ei­rík­ur og að hans mati er þetta brot gegn lög­um um stöðu ís­lenskr­ar tungu og tákn­máls þar sem er tekið fram að ís­lenska sé mál Alþing­is, dóm­stóla og stjórn­valda. Áslaug hefur sagt að um sé að ræða starf „talnaspekings“, íslenskukunnátta sé ekki aðalatriðið.

 „Ég tel óþarfi að útiloka þá sem ekki tala fullkomna íslensku frá störfum sem þessum þar sem unnið er með tölur en ekki tungumálið. Hér á landi eru yfir 50.000 erlendir ríkisborgarar og það hlýtur að vera óhætt og eðlilegt skref að þau hafi einhvern aðgang að störfum hjá hinu opinbera þar sem hægt er að koma því við,“ segir Áslaug Arna sem segist þó vissulega ætla að kanna það betur hvort auglýsingin standist ekki lög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert