Rósa sækist eftir formannsstóli SÍS

Rósa sækist eftir formannsstólnum.
Rósa sækist eftir formannsstólnum. Ljósmynd/Aðsend

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar gefur kost á sér til formennsku í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) í komandi formannskjöri í ágúst næstkomandi.

Síðustu fjögur ár hefur Rósa verið bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Áður var hún formaður bæjarráðs og fræðsluráðs en hún hefur verið bæjarfulltrúi frá árinu 2006. Þá var hún einnig formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árin 2018 -2020.

„Tel ég að reynsla mín og fyrri störf komi að góðum notum innan stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fyrir þá mikilvægu starfsemi sem fram fer á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga,“ segir í tilkynningu frá Rósu.

Frekari stafræn þróun

Hyggst Rósa ætla meðal annars að leggja áherslu á frekari uppbyggingu í húsnæðismálum.

„Á meðal þeirra viðfangsefna sem munu bera hæst á komandi mánuðum og misserum og ég vil leggja áherslu á er frekari uppbygging í húsnæðismálum, mörkun sameiginlegrar stefnu ríkis og sveitarfélaga í málefnum og þjónustu við eldra fólk, úrgangs- og umhverfismálin, menntun og farsæld barna, stafræna þróun sveitarfélaga í þjónustu við íbúa og að lagðar verði fram nýjar tillögur um kostnaðarskiptingu rikis og sveitarfélaga í málefnum fatlaðs fólks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert