Halda Druslugönguna eftir tveggja ára hlé

Druslugangan var síðast haldin árið 2019.
Druslugangan var síðast haldin árið 2019. mbl.is/Hari

Druslugangan verður gengin aftur núna á laugardaginn í Reykjavík eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldurs. Gengið verður frá Hallgrímskirkju kl. 14:00 og stefnan tekin á Austurvöll eins og venjulega. 

Í tilkynningu kemur fram að í ár verði áherslur Druslugöngunnar sérstaklega sniðnar að því að vekja upp samtal varðandi þátt valdakerfa á Íslandi í berskjöldun jaðarsettra hópa fyrir kynferðisofbeldi. 

Eftir gönguna munu ræðuhaldarar á Austurvelli deila upplifun sinni af íslenskum valdakerfum og ræða hvernig hægt sé að verða betri bandamenn og hvernig hægt sé að taka virkan þátt í að rífa kerfislægt misrétti og kynferðisofbeldi upp með rótum. 

Borgarfulltrúi og varaþingmaður með erindi

Fyrst á dagskrá er Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, starfsmaður Landssamtakanna Þroskahjálp, en í tilkynningunni segir að hún hafi um árabil verið áberandi í baráttunni fyrir réttindum fatlaðs fólks og veitt öfluga fræðslu um kerfisbundið misrétti og fordóma í garð fatlaðs fólks. Segir að stór þáttur í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks sé frelsi frá kynferðisofbeldi, sem eigi sér stundum stað af hálfu umönnunaraðila og annarra sem tengjast þolandanum.

Borgarfulltrúinn og mannfræðingurinn Sanna Magdalena Mörtudóttir tekur til máls á eftir Ingu Björk, en í tilkynningunni segir að hún hafi opinskátt rætt um kynþáttafordóma og hvernig það sé að tilheyra íslensku samfélagi. Þá sé Sanna fyrsta kjörna manneskjan í borgarstjórn sem ekki sé hvít, og áherslur hennar í starfi snúist um félagslegt og efnahagslegt jafnrétti. Sanna mun flytja erindi um kynferðisofbeldi í samhengi fátæktar.

Málflutningi lýkur með erindi Lenyu Rúnar Taha Karim, varaþingmanns Pírata, sem í tilkynningu segir að hafi lagt sem fram endurskoðun á löggjöf um kynferðisbrot, bæði á refsiákvæðum og málsmeðferðarreglum, með tilliti til hagsmuna þolenda. Lenya mun segja frá reynslu sinni af réttarvörslukerfinu sem barn innflytjenda og kona af lituðum uppruna.

Þrjá konur flytja ræðu á laugardaginn.
Þrjá konur flytja ræðu á laugardaginn. mbl.is/Hari

Eftir að ræðuhöldum lýkur á Austurvelli tekur við lifandi tónlist. Fram koma söngkonurnar Gugusar og Kristín Sesselja, og Reykjavíkurdætur slá svo botninn í samstöðufund Druslugöngunnar.

mbl.is