Ný skemmdarverk þrjá morgna í röð

Skemmdarverk hafa verið unninn á flötum GKG.
Skemmdarverk hafa verið unninn á flötum GKG. Ljósmynd/Aðsend

„Það er svo sem ekkert stórmál að laga þetta. Við þurftum bara að skera gras einhvers staðar úr flötunum aftast og færa það inn í skemmdirnar og við erum búin að því,“ segir Guðmundur Árni Gunnarsson, formaður Golf­klúbb­s Kópa­vogs og Garðabæj­ar (GKG), í samtali við mbl.is um skemmdarverk sem unnin voru á flötum GKG.

„Það tók kannski einn og hálfan klukkutíma fyrir einn starfsmann að græja þetta, svo það er í rauninni ekkert fjárhagslegt tap af þessu.“

Frekar einhver fíflalæti 

Í til­kynn­ingu frá GKG í gær kom fram að óprúttn­ir ein­stak­ling­ar hefðu unnið skemmd­ir á nokkr­um flöt­um í skjóli nætur, bæði á Mýr­inni og Leir­dals­velli.

„Við löguðum þetta jafnóðum. En það var alltaf eitthvað nýtt þrjá morgna í röð. Þetta hefur líklega verið eitthvað verslunarmannahelgardjamm,“ segir Guðmundur um verknaðinn en í tilkynningu frá GKG í gær kom fram að líklega væri um vanan kylfing að ræða vegna lögunar kylfufaranna.

„Það voru ekki mín orð. Mér þykir líklegra að þetta hafi verið eitthvað lið í partýstandi. Vanur kylfingur myndi ekki nota té undir boltann inni á gríni og við fundum té í kringum skemmdirnar svo ég hef ekki trú á að þetta hafi verið vanur maður, frekar einhver fíflalæti.“

Lögreglan fengi ólíklega nokkuð út úr rannsókn

Spurður hvort búið sé að finna skemmdarvarginn svarar Guðmundur því neitandi og telur ólíklegt að svo verði þar sem engar myndavélar séu á svæðinu. „Þetta gerist einhvers staðar úti á velli þar sem enginn sér til og það hefur ekkert vitni gefið sig að okkur heldur. Það er mjög langsótt að finna skemmdarvarginn, nema hann verði gripinn að verknaði.“

„Gæslan er alltaf hjá okkur fram á kvöld en hún er ekki til miðnættis. Við treystum bara á það að fólk gangi vel um. Við fengum fréttir af því að seint um kvöld hefðu einhverjir unglingar verið inni á vellinum efst uppi í Leirdal nálægt Kórahverfinu. Þetta voru ekki golfarar heldur fólk á vespum en ég held að lögreglan yrði mörg ár að rannsaka þetta og fengi aldrei neitt út úr því,“ bætir Guðmundur við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert