Félagar í björgunarsveitinni Þorbirni gengu gönguleiðina að gosstöðvunum í Meradölum fram og til baka í kvöld í svartaþoku og slæmu veðri til að fjölga stikum á gönguleiðinni og stuðla þannig að bættu öryggi í kringum gosstöðvarnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá björgunarsveitinni.
Að því er fram kemur þar fjölguðu þeir stikum á gönguleiðinni töluvert og settu á þær litað endurskin svo að auðveldara væri að sjá þær.
Í tilkynningunni kemur fram að veðrið hafi verið snarvitlaust og nær ekkert skyggni á gönguleiðinni. Verkefnið tók björgunarsveitina sex klukkustundir en það kláraðist seint í kvöld.