Vígslubiskup vígður á Hólahátíð

Biskupsvígsla að Skálholti árið 2018.
Biskupsvígsla að Skálholti árið 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Hólahátíð verður haldin hátíðleg um helgina, 13.-14. ágúst, á Hólum í Hjaltadal. Það sem hæst ber á hátíðinni að þessu sinni er að vígður verður nýr vígslubiskup í Hólaumdæmi.

Séra Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæjarprestakalli, var kjörinn vígslubiskup í sumar. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, vígir sr. Gísla við hátíðlega athöfn í Hóladómkirkju klukkan 14 á sunnudag. Kirkjukórar Glaumbæjarprestakalls og Hóladómkirkju syngja. Bryndís Björgvinsdóttir og Brjánn Ingason leika á fagott og selló. Organistar eru þeir Jóhann Bjarnason og Stefán Gíslason. Eftir vígsluna verður svo veislukaffi á Kaffi Hólum.

Núverandi vígslubiskup í Hólaumdæmi, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, lætur formlega af störfum 1. september eftir tíu ára þjónustu.

Samkvæmt venju er hátíðin haldin sunnudaginn í 17. viku sumars. Í fyrra féll Hólahátíð niður vegna kórónuveirufaraldursins.

Dagskráin byrjar með hefðbundnum hætti í dag með pílagrímagöngu eftir Hallgrímsveginum frá Gröf á Höfðaströnd heim að Hólum. Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, flytur hátíðarræðu kl. 18 og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup flytur ávarp. Þá verður tónlist flutt af þeim Brjáni Ingasyni og Bryndísi Björgvinsdóttur. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert