46 hafa sótt um bætur vegna bólu­setn­ingar við Covid-19

Alls hafa 46 umsóknir borist Sjúkratryggingum Íslands.
Alls hafa 46 umsóknir borist Sjúkratryggingum Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls hafa 46 sótt um bætur vegna lík­am­legs tjóns í kjöl­far bólu­setn­ingar gegn Covid-19 hjá Sjúkratryggingum Íslands. 

Mbl.is greindi frá því um miðjan júlí að Sjúkratryggingar höfðu samþykkt bótaskyldu í þrem málum. Sú tala hefur ekki breyst síðan þá.

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum eru málin þó enn í gagnaöflun og hafa ekki verið greiddar bætur í neinu máli. 

„Enn er óvíst með hvort tjón umræddra einstaklinga nái því lágmarki sem lög kveða á um svo bótagreiðsla fari fram, það eru um kr. 120.000,“ segir í skriflegu svari Sjúkratrygginga Íslands til mbl.is.

Bótaskyldu synjað í þrem málum

Þá hefur bótaskyldu verið synjað með ákvörðun í þrem málum. Þegar fyrst var greint frá málinu um miðjan júlí hafði tveimur umsóknum verið hafnað. Aðrar umsóknir eru enn í vinnslu.

„Önnur mál eru á ýmsum stigum vinnslu, frá því að vera í fyrstu gagnaöflun og til þess að styttast fari í að gefin verði út ákvörðun um hvort bótaskylda sé fyrir hendi,“ segir í svari Sjúkratrygginga.  

Þrem umsóknum hefur verið hafnað.
Þrem umsóknum hefur verið hafnað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mbl.is hefur greint frá því að meðalaldur þeirra þriggja sem hafa fengið umsókn sína samþykkta séu 39 ár. 

Nú liggur fyrir að tveir þeirra eru kvenkyns og einn karlkyns. 

Ekki liggur fyrir hvers eðlis auka­verk­an­ir þessara þriggja hafi verið. Mbl.is óskaði eftir upplýsingum um það í júlí en Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands urðu ekki við því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert