Meðalaldur þeirra sem fá bætur 39 ár

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meðalaldur þeirra einstaklinga sem fá bætur frá íslenska ríkinu vegna bólusetningu gegn Covid-19 er 39 ár.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Sjúkratrygginga Íslands til mbl.is

Greint var frá því í síðustu viku að þrír einstaklingar hefðu fengið bætur vegna lík­am­legs tjóns í kjöl­far bólu­setn­ingu gegn Covid-19. Af þeim 40 um­sókn­um sem hafa borist Sjúkra­trygg­ing­um Íslands hafa aðeins fimm verið af­greidd­ar, þrjár voru samþykkt­ar og tveim­ur var hafnað. 

Málsmeðferð hvers máls umfangsmikli

Mbl.is óskaði meðal annars eftir upplýsingum um upphæðir bótanna og þær aukaverkanir sem þessir þrír einstaklingar upplifðu í kjölfar bólusetningarinnar. Sjúkratryggingar Íslands urðu ekki við því.

„Því miður geta Sjúkratryggingar ekkert sagt um þessa þrjá einstaklinga sem hafa fengið samþykkta umsókn um bætur, hvorki hvaða afleiðingar er um að ræða né fjárhæð bóta,“ segir í svari Sjúkratrygginga Íslands.

Þá er ekki ljóst hvenær afgreiðslu allra umsóknanna ljúki.

„Erfitt er að segja til um hvenær afgreiðslu þessara mála mun ljúka en hvert mál felur í sér gagnaöflun og mat á bótarétti auk mats á umfangi tjóns og upphæð bóta. Málsmeðferð hvers máls er því umfangsmikil.“

mbl.is