Hermann leiðir eftir fyrsta dag þolreiða

Mynd frá þolreiðum síðasta sumar.
Mynd frá þolreiðum síðasta sumar. Landssamband hestamanna.

Þolreið landssambands hestamanna hófst í gær og stendur yfir í fjóra daga. Síðasta sumar var haldið prufumót, en nú er keppt í greininni i fyrsta skipti á Íslandi. Bæði íslenskir og erlendir knapar taka þátt í sex liðum, en hvert lið saman stendur af einum knapa, tveimur aðstoðarmönnum og þremur íslenskum hrossum. 

Upphaf keppnigreinarinnar má rekja til herþjálfunar á hestum í byrjun 20. aldar. Vegalengdir í þolreiðarkeppnum erlendis eru misjafnar, algengt er að dagleiðir séu 80 til 160 kílómetrar sem knapi og hestur verða að klára á 12 til 24 klukkustundum.

Einnig eru til styttri þolreiðar þar sem keppt er í 25 til 35 kílómetra vegalengdum. Knapar mega hlaupa, ganga eða skokka með hesta sína hvenær sem er en verða þó að koma ríðandi í mark. Íslenski hesturinn þykir henta vel í þolreiðar þar sem dagleiðin er allt að 70 kílómetrar. 

Riðið var um Landsveit, frá Skarði að Gunnarsholti, með áningu að Rjúpnavöllum, fyrsta daginn. Fyrsti áfanginn, að Rjúpnavöllum, vor 28 kílómetrar, en seinni áfanginn voru 31 kílómetri. 

Í dag var svo riðið frá Landmannahelli á fyrsta legg, um Krakatindsleið og kringum Valafell á Landmannaafrétti.  

Hermann Árnason leiðir

Eftir fyrsta daginn munaði einungis einni mínútu á fyrstu tveimur knöpunum, en Hermann Árnason, úr liði Líflands var fyrstur að ljúka við áfangann. 

Dýralæknir fylgir hópnum eftir og gefin eru refsistig ef hestarnir fá áverka eða púlsinn þeirra er óæskilega hár að lokinni reið. Lítið var um slík refsistig vegna áverka en einhverjir fengu refsistig vegna púls. 

Knaparnir bera staðsetningartæki og því hægt að fylgjast með ferðum þeirra á rauntíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert